UNO, hin byltingarkennda fiskvinnsluvél Vélfags, verður afhent norska útgerðarfyrirtækinu Bluewild í maí. Bluewild, sem stendur fyrir metnaðarfullu nýsköpunarverkefni á sviði útgerðar og vinnslu, verður þar með fyrsti kaupandi þessarar norðlensku tækniafurðar. Silfá Huld Bjarmadóttir, markaðsstjóri Vélfags, segir að vélin verði sett um borð í ECOFIVE nýsköpunartogarann norska sem nú er í smíðum.

UNO er í raun fimm vélar í einni. Hún beinhreinsar fisk, hausar, roðflettir, flakar, sker í bita og er með innbyggt gæðaeftirlit. Tækið hefur verið í þróun í tvö ár. Bluewild útgerðin hefur reyndar fest kaup á tveimur tækjum þessarar gerðar.

„Áætlað er fyrstu vélarnar fari um borð í ECOFIVE í sumar á þessu ári og unnið er að fleiri sölusamningum bæði innlendis og erlendis sem inniheldur UNO – One solution. Það er ótrúlegt tækifæri fyrir Vélfag að afhenda lausn í nýsköpunarverkefni eins og ECOFIVE en UNO vélin fellur ótrúlega vel að kröfum BlueWild um sjálfbærar veiðar, hámarksnýtingu og aukið verðmæti afurða. Markmið okkar er að nýta eins mikið og við getum úr fiskinum í þessari vél og án þess að mannshöndin komi þar nærri,“ segir Silfá Huld.

Silfá Huld Bjarmadóttir, markaðsstjóri Vélfags.
Silfá Huld Bjarmadóttir, markaðsstjóri Vélfags.

5 tæki í einu tæki

UNO leysir af hólmi fimm vélar og gjörbyltir hvítfiskvinnslunni eins og hún þekkist í dag. Fisk er raðað inn í vélina sem sér um afganginn. Hún hausar, flakar, beinhreinsar, roðdregur og gallagreinir flakið þegar það er á leið út úr vélinni. Vélin metur hvort þurfi að snyrta flakið eitthvað frekar þegar það kemur út úr henni. Það fer því annað hvort beint í pökkun framhjá snyrtilínunni eða til áframhaldandi vinnslu.

UNO vinnur líka afurðir ofan og neðan við hrygg við dálkbeinið og þær ásamt beingarðinum, sem er skorinn úr með vatni, eru kjörhráefni í marning úr afurðum sem væri annars hent eða færu í lægri gæðaflokk. Segja má að fullvinnsla UNO vélarinnar sé algjör því hún sker líka gellur og kinnar úr hausnum.

„Við erum að reyna nýta eins mikið og framast er hægt úr fiskinum í þessari vél og án þess að mannshöndin komi þar nærri,“ segir Andri Fannar Gíslason sjávarútvegsfræðingur sem hefur verið í teymi Vélfags sem þróaði UNO vélina.

Aðlagar sig hverri tegund

UNO vélin vinnur allar helstu bolfisktegundir sem veiddar eru á Íslandsmiðum, þ.e. þorsk, ýsu, ufsa, karfa en alaskaufsa einnig. Með rofa á skjá vélarinnar er hægt að velja á milli tegunda og vélin aðlagar sig sjálfvirkt að hverri tegund fyrir sig. Hún greinir einnig stærð fiska og aðlagar vinnsluna eftir henni.

Kostir UNO vélarinnar eru í fyrsta lagi aukin nýting en er mannaflssparandi. Hún hentar jafnt til uppsetningar í skipum og minni landvinnslur gætu séð sér hag í svo fyrirferðarlítilli en afkastamikilli vél.

„Flökunarvélarnar sem við höfum framleitt geta flakað allt frá 500 gramma fiski og upp í 8-10 kílógramma fisk. Þessi þáttur flökunarvélarinnar er innbyggður í nýju UNO vélina. Við byggjum því áfram á því góða starfi sem við höfum unnið í þróun á flökunarbúnaði,“ segir Andri Fannar.

100% nýting aflans

Norska útgerðarfélagið Bluewild og hönnunar- og skipasmíðastöðin Ulstein Design & Solutions hlutu nýsköpunarverðlaunin á Nor-Fishing sjávarútvegssýningunni í Þrándheimi fyrir tæknilausnir í togaranum Ecofive.

UNO - One solution vélin hausar, flakar, beinhreinsar, roðdregur og gallagreinir flakið þegar það er á leið út úr vélinni.
UNO - One solution vélin hausar, flakar, beinhreinsar, roðdregur og gallagreinir flakið þegar það er á leið út úr vélinni.

Fyrirtækin tvö ásamt fleiri aðilum, þar á meðal Skaganum 3X og Vélfagi, þróuðu nýja tækninálgun fyrir verksmiðjutogara en nýsköpunin er sögð liggja m.a. í nýrri útfærslu á fiskmóttöku og meðhöndlun trollsins. Markmiðið er að auka sjálfbærni í veiðum með því að draga úr orkunotkun en halda gæðum vörunnar og tryggja 100% nýtingu aflans. Nafn skipsins, Ecofive, er skammstöfun á Eco-Friendly Fishing Vessel, þ.e. umhverfisvænu fiskiskipi.

Í meirihluta eigu Norebo í Rússlandi

Þegar aflinn kemur um borð í þetta 73,2 metra langa skip, fer hann ekki um togdekkið heldur er fluttur lifandi í vatnstanka sem eru fyrir neðan sjólínu. Þaðan fer fiskurinn í blóðgun. Aflinn er svo færður á efra verksmiðjudekkið með yfirþrýstingslosun sem kemur í veg fyrir hið dæmigerða tjón sem getur orðið við annars konar dælingu. Þetta er ný tækni sem hefur ekki verið prófuð áður en megintilgangurinn er að koma í veg fyrir að fiskurinn merjist og blæði.

Það verður sannarlega forvitnilegt að fylgjast með hvernig UNO vélinni verður tekið hjá íslenskum fiskvinnslum og útgerðum en ekki síður á alþjóðavettvangi. Norebo útgerðin í Rússlandi hefur altént trú á því sem verið er að gera hjá Vélfagi því fyrirtækið keypti 54,3% í íslenska einkahlutafélaginu sem er þá núna í minnihlutaeigu stofnendanna, hjónanna Ólafar Lárusdóttur og Bjarma Sigurgarðarsonar.