Frystitogarinn Kirkella, sem smíðaður var í Tyrklandi fyrir breska útgerðarfélagið UK Fisheries, var afhentur í síðustu viku. Þetta er fyrsti nýsmíðaði togari Breta í 40 ár, að því er fullyrt er á færeyska vefnum fiskur.fo.

Dótturfélag Samherja í Skotlandi, Outward Fishing, á helmings hlut í útgerðinni á móti hollenska útgerðarfélaginu Parlevliet & Van der Plas.

Skipinu var gefið nafn í Hull. Það er 86 metra langt og 16 metra breitt og ætlað 34 manna áhöfn.

Kirkella var smíðuð í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi, hinni sömu og er nú með mörg íslensk skip í smíðum.