Fyrsta gámaskip Samskipa, sem hefur viðkomu á Hornafirði frá því í ágúst 2000, liggur nú við hafnarbakkann þar eystra. Verið að lesta skipið, Pioneer Bay, loðnuafurðum sem fara eiga á Japansmarkað en loðnuvertíð stendur nú sem hæst. Heildarburðargeta skipsins er um 5.500 tonn en það tekur rúmlega 500 20 feta gámaeiningar (TEU). Frá Austfjörðum heldur skipið með afurðirnar til Hollands.
Pioneer Bay er sama skip og Samskip munu nota á nýrri siglingarleið sem kynnt var fyrir skömmu. Skipið fer þá frá Reykjavík til Ísafjarðar og verður þar þann 19. mars. Daginn eftir verður skipið á Akureyri og siglir þaðan til Reyðarfjarðar og svo áleiðis til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum.
Í frétt frá Samskipum segir að með nýrri boðaðri siglingaleið félagsins með viðkomu á fyrrgreindum stöðum muni útflytjendur og innflytjendur á landsbyggðinni sjá fram á hagræði og fjárhagslegan sparnað með því að komast í beint samband við mikilvægustu markaðssvæði sín í Evrópu. Þá muni nýja siglingaleiðin draga úr landflutningum og spara þannig dýra olíu. Jafnframt því að draga þannig úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda minnki álag á þjóðvegakerfið.