Stefna stjórnvalda um innköllun aflaheimilda hefur lítið sem ekkert verið til umræðu nefndinni sem sjávarútvegsráðherra skipaði síðastliðið haust til þess að freista þess að ná samkomulagi um breytingar á fiskveiðistjórnuninni.

Guðbrandur Hannesson formaður nefndarinnar sagði í samtali við Fiskifréttir að ástæðan fyrir þessu væri sú að beðið væri eftir úttekt Háskólans á Akureyri um áhrifin af innköllun aflaheimilda á fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja. Tafir hefðu orðið á þessari vinnu m.a. meðan beðið var eftir upplýsingum um stöðu sjávarútvegsins árið 2008 og skuldastöðu greinarinnar. Nú sæi fyrir endann á málinu og myndi skýrslan verða afhent um þessi mánaðamót.

,,Ekkert hefur verið dregið til baka af fyrri yfirlýsingum um innköllun aflaheimilda, en menn hafa alltaf sagt, bæði í almennri umræðu og eins í stöðugleikasáttmálanum, að ekkert yrði gert sem rústað gæti sjávarútveginum. Háskólinn á Akureyri er að stilla upp ýmsum leiðum og reikna út mismunandi möguleika,” sagði Guðbrandur. Talsmenn hagsmunaaðila í sjávarútvegi segja hins vegar að engin sátt geti orðið í nefndinni ef innköllun aflaheimilda verði haldið til streitu.

Sjá ítarlega umfjöllun um málið í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.