Adolf Guðmundsson formaður LÍÚ segir í grein sem hann ritar í Fiskifréttir í dag að fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki verði órekstrarhæf ef ekki verði gerðar breytingar á veiðigjöldum. Hann segir sitt fyrirtæki þeirra á meðal.
,,Í rúm 50 ár hefur það fyrirtæki sem ég er í forsvari fyrir, Gullberg á Seyðisfirði, staðið vel. Það veiðigjald sem okkur er nú gert að greiða mun gerbreyta stöðu fyrirtækisins til verri vegar og þar með stöðu samfélagsins sem við búum í. Sama gildir um fjölmörg önnur fyrirtæki og byggðarlög í svipaðri stöðu. Margföldun veiðigjalda, sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári, mun óhjákvæmilega leiða til enn frekari samþjöppunar og fækkunar fyrirtækja.“
Og síðan segir Adolf:
,,Úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á stöðu Gullbergs sýnir að fyrirtækið fer úr því að geta vel staðið við skuldbindingar sínar yfir í það að verða órekstrarhæft. Hlutfall veiðigjaldsins af framlegð fyrirtækisins fer úr 11% árið 2011 upp í 61% árið 2018, þegar áhrif gjaldsins verða að fullu komin til framkvæmda.
Það getur ekki verið ætlun löggjafans að gera vel rekin fyrirtæki órekstrarhæf með tilheyrandi áhrifum á byggðarlög um land allt.“
Sjá greinina í heild í Fiskifréttum.