Fyrirtæki í bolfiskvinnslu hafa sýnt áhuga á því að hefja starfsemi í Þorlákshöfn og sjá kosti þess að vera með þess háttar starfsemi þar vegna nálægðar við flutningsleiðir á erlenda markaði. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir ákvörðun Ísfélags hf. um að hætta allri fiskvinnslu á staðnum mikið högg fyrir samfélag eins og Þorlákshöfn sem byggir á ríkri hefð fiskvinnslu í gegnum söguna.
Hryggð í samfélaginu öllu
„Annars vegar er um það að ræða að þarna missir talsverður fjöldi fólks lífsviðurværið og það er alltaf alvarlegt þegar það gerist, óháð því í hvaða atvinnugrein það er. En þegar það gerist í samfélagi eins og okkar sem verður til á forsendum sjávarútvegs þá snertir það djúpt DNA-ið í samfélaginu. Við finnum að þessi ákvörðun hefur veruleg áhrif, fyrst og fremst fyrir starfsmennina sem verða fyrir atvinnumissi, en það veldur líka ákveðinni hryggð í samfélaginu öllu þegar svona grunnþættir falla. Við lítum þetta alvarlegum augum en um leið er þetta áminning um að það má aldrei hætta að byggja upp atvinnulífið. Verðmætasköpunin er alltaf forsenda velferðarinnar,“ segir Elliði.
Þorlákshafnarbúar hafa áður orðið fyrir skakkaföllum eins og þessum. Síðla árs 2017 hætti Frostfiskur starfsemi í Þorlákshöfn. Hjá fyrirtækinu störfuðu 50 manns og það var þá stærsti atvinnuveitandinn á staðnum. Hjá Ísfélaginu í Þorlákshöfn hefur 34 verið sagt upp.
Nú eru þrjú fyrirtæki með fiskvinnslu í Þorlákshöfn, þ.e. Ísfélagið sem hættir allri sinni vinnslu þar í haust, Skinney-Þinganes og fjölskyldufyrirtækið VER.
Hvergi betra að gera út á bolfisk
Elliði segir að þrátt fyrir þessa þróun sé staðan í Þorlákshöfn sterk. Staðan sé einfaldlega sú að hvergi á landinu sé betra að gera út á bolfisk. Þar komi meðal annars til nálægðin við fiskimiðin og nálægðin við stærsta atvinnusvæðið. Þá sé hafnaraðstaðan góð sem og þekking í samfélaginu og boðið er upp á þrjár ferðir á viku með skipum Smyril Line með vörur framleiðenda á markaði í Evrópu.
„Við vitum að bolfiskvinnslan á eftir að ná fyrri styrk hér í Þorlákshöfn og ástæðan fyrir ákvörðun Ísfélagsins var sú að félagið hyggst flytja bolfiskvinnsluna að uppsjávarvinnslu sinni til þess að halda uppi heilsársvinnu fyrir fólkið. Önnur fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að hefja hér bolfiskvinnslu og við vitum einnig að innan skamms tíma hefst hér vinnsla á laxi. Það er líklegra en ekki að heimilisfesti laxavinnslu á Íslandi verði í Þorlákshöfn. En það hjálpar ekki þeim sem missa störf sín núna í október. Við höfum rætt við aðra vinnsluaðila og fengið jákvæð viðbrögð þótt það sé ekkert fast í hendi.“