Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hefur lengi fylgst með hafís hér við land og norður af. Hún segir að á seinni árum hafi bætt tækni auðveldað mjög alla greiningarvinnu. Meðal annars sé orðið mun auðveldara að átta sig á reki borgarísjaka en áður var.
„Það er kannski aðallega vegna þess að við erum farin að fá myndir svo oft,“ segir hún. „Yfirleitt gat það verið svolítið vandamál að sjá hvort eitthvað sem þú sást á gervitunglamynd var borgarísjaki eða skip. Þú þurftir helst að tengja þig inn á AIS-kerfið eða Marine Traffic eða eitthvað svoleiðis til að sjá hvort þetta var skip, nema borgarísjakarnir væru mjög stórir. Þá þarf oft að tína inn annars konar gögn til þess að vera alveg viss.“
Það sé hægt að gera til dæmis með því að skoða hitamyndir.
„Svo erum við farin að fá myndir oft á dag þannig að það er hægt að nota tímaröðina til að átta sig betur á þessu, og svo erum við farin að fá myndir sem eru nákvæmari. Hver myndeining var áður kannski að sýna 300 metra fyrirbæri en nú er hægt að fá myndir sem sýna tíu metra fyrirbæri.“
Hún segir að á hverjum degi komi margvíslegar gervitunglamyndir af heimskautasvæðunum. Þær sýni meðal annars legu hafíssins nokkuð vel.
„Þannig er hægt að fylgjast með reki íssins og hann ætti ekki að koma fólki að óvörum lengur.“
Þrátt fyrir myrkur og ský
Ratsjármyndir svokallaðar, eins og sú sem sjá má hér á opnunni, segir hún nú orðið einna heppilegastar til að fylgjast með hafísnum.
„Þær sýna yfirborð jarðar þrátt fyrir myrkur og ský – sem óneitanlega kemur sér vel við hefðbundnar hafísaðstæður. Aðrar myndir, svo sem ljósmyndir og hitamyndir, koma einnig að gagni til að greina frekar ístegundir og yfirborðshita sjávar.“
- Ratsjármynd af hafís frá SENTINEL-1 gervitunglinu, tekin 11. janúar síðastliðinn. MYND/Polarview.aq
Flugvél Landhelgisgæslunnar er einnig með ýmsan búnað til nákvæms eftirlits með hafís. Ingibjörg segir það koma sér vel þegar ísinn er kominn nálægt landi þannig að siglingaleiðir verða torsóttar.
„Minni jakar og borgarbrot, sem örðugt er að greina með gervitunglamyndum og jafnvel skiparatsjám, geta áfram valdið mikilli hættu fyrir sjófarendur ef þeir reikna ekki með ís á tilteknu svæði.“
Mikilvægt sé að fylgjast vel með heimskautasvæðum þar sem umferð, bæði skemmtiferðaskipa og annarra skipa, hefur aukist á undanförnum árum.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
- Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands. MYND/Eyþór
„Tilkynningar frá skipum skipta einnig máli, og þeim þarf að koma til Veðurstofu Íslands, í sérstakt tilkynningakerfi. Ýmis kerfi hafa einnig verið hönnuð til að auðvelda skipstjórnarfólki og rannsakendum aðgengi að gervitunglagögnum og hafískortum. Einnig hefur verið lögð mikil vinna við að samræma útlit og táknun á hafískortum, með alþjóðlegum stöðlum.“
Stórslysin
Hafís og borgarísjakar hafa í gegnum tíðina verið sjófarendum hættulegir og má nefna að nokkur stórslys urðu á tuttugustu öld. Þekktust eru líklega slysin þegar Titanic (1912) og Hans Hedtoft (1959) fórust.
„Í kjölfar þessara slysa voru settar á laggirnar hafíseftirlits- og rannsóknastofnanir í nokkrum löndum, og alþjóðlegt samstarf um þessi mikilvægu verkefni hefur alltaf verið öflugt.“
Síðan er ísing annars konar hætta sem getur skapast á köldum hafsvæðum.
„Örfáar vikur eru frá því að skip fórst í Barentshafi vegna þess að ísing hlóðst hratt utan á það í miklu særoki, þannig að stöðugleiki skipsins brást og skipið fór hratt niður. Þetta hefur einnig gerst við Ísland, einkum fyrr á tímum.“
Skemmst er að minnsta ástandsins sem skapaðist víða á Austfjörðum nú fyrr í janúarmánuði, sem olli því meðal annars að fóðurprammi í eigu Laxa fiskeldis sökk á Reyðarfirði.
„Nú eru ísingarspár sem betur fer hluti af verksviðum margra veðurstofa,“ segir Ingibjörg.
Hún segir ísinn reyndar hafa veitt vörn gegn særoki þegar ísingarstormar geisuðu. Skipstjórar hafi því í einhverjum tilfellum valið að leita inn í hafísþekjuna þegar ísingarstormar geisuðu, og nefnir sem dæmi hvalveiði- og selveiðiskip Norðmanna á Grænlandshafi.
„Þetta gat hins vegar verið hættulegt, ef of langt var farið og ísinn fór að reka saman og þéttast.“