Eftir fremur laka makrílvertíð og enga loðnuveiði bíða margir eftirvæntingarfullir eftir niðurstöðum úr sameiginlegum loðnuleiðangri Íslendinga og Grænlendinga sem nú stendur yfir. Grænlenska hafrannsóknaskipið Tarajoq startaði leiðangrinum í ágúst og 9. september bættist Árni Friðriksson í hópinn. Á ýmsu hefur gengið í leiðangrinum, þar á meðal vélarbilun í Árna Friðrikssyni sem við það heltist úr lestinni. Hafrannsóknastofnun fékk þá grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammasak til þess að klára leiðangurinn með Tarajoq. Niðurstaðna er að vænta um miðjan þennan mánuð.
Nýtt skip
Þess er þó ekki langt að bíða að skipakostur Hafrannsóknastofnunar verði meira í takt við mikilvægi þeirra verkefna sem stofnuninni er falin. Ráðgert er að nýtt rannsóknaskip, Þórunn Þórðardóttir HF, komi til landsins fyrir árslok. Ricardo Garcia, viðskiptastjóri Astilleros Armon skipasmíðastöðvarinnar, sem smíðar nýja skipið, var á IceFish 2024 sýningunni og fullyrti þá að skipið yrði komið í hendur Hafrannsóknastofnunar fyrir jól.
„Þórunn Þórðardóttir HF er stærsta skip sem við höfum smíðað fyrir Íslendinga og einnig það dýrasta. Rannsóknaskip eru almennt gríðarlega vel búin tækjum og mjög flókin í smíðum. Ég get fullyrt að Þórunn Þórðardóttir HF verður hátæknivæddasta fiskrannsóknaskip í heimi. Ef allt gengur samkvæmt áætlunum verður skipið afhent á Spáni í þriðju viku nóvember. Ég á því von á að það verði komið til Íslands fyrir jól. Það verður góð jólagjöf til Íslendinga,“ sagði Garcia.
Nú er bara að sjá hvort þessar dagsetningar standist en þær eiga það til að breytast með litlum fyrirvara eins og dæmin sýna.
Síðasta loðnuvertíð blásin af
Það var mörgum mikil vonbrigði þegar loðnuvertíð var blásin af vertíðina 2023/2024 þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hefði áður veitt ráðgjöf um veiðar á tæplega 460.000 tonnum. En loðna fannst ekki í veiðanlegu magni þegar til kastanna kom. Ráðgjöfin var endurskoðuð og mælt með að engar veiðar færu fram. Þetta var auðvitað skellur fyrir þjóðarbúið og uppsjávarfyrirtækin því á vertíðinni 2021/2022 veiddu Íslendingar tæp 522 þúsund tonn og vertíðina 2022/2023 nam veiðin 330 þúsund tonnum. Talið er að útflutningsverðmætin sem sköpuðust 2021/2022 hafi numið yfir 50 milljörðum króna.
Skýrist betur í lok leiðangursins
Það er því beðið með eftirvæntingu hvað kemur út úr sameiginlega loðnuleiðangrinum núna og hvort útkoman dugi til þess að gefin verði út ráðgjöf um upphafskvóta. Birkir Bárðarson fiskifræðingur segir að það muni skýrast í kjölfar leiðangursins hvernig staðið verði að málum. Birkir var um borð í Polar Ammassat norðan við Scoresbysund við mælingar þegar rætt var við hann. Að venju var í heildina mest að sjá af ungloðnu suðvestur á grænlenska landgrunninu og kynþroska loðna fannst á Grænlandssundi og þar austur af. Hann vildi ekki tjá sig um í hve miklu magni fyrr en unnið hefði verið upp úr mælingunum. Birkir segir eðlilegt að menn bíði óþreyjufullir eftir niðurstöðum því þær skipti gríðarlega miklu máli í mörgu tilliti.
Vænting um 230.000 tonna vertíð
„Síðasta haust mældum við ungloðnu sem gaf ekki tilefni til að mæla með upphafs aflamarki á þessari vertíð. En í sögulegu samhengi og miðað við það hve mikið við mældum af ungloðnu í fyrra þá er væntingin um vertíðina einhvers staðar í kringum 230.000 tonna vertíð. Þetta þarf auðvitað að skoða með fyrirvara. Það voru svipaðar væntingar fyrir síðustu vertíð sem gaf ekki neitt. Þess vegna höfum við fyrirvara á upphafsráðgjöfinni og ástundum varúðarnálgun því það er talsverð óvissa í þessu. Einu gögnin sem við höfum ennþá til þess að meta líkurnar er þessi mæling frá því í fyrrahaust. Á næstu dögum fáum við niðurstöður úr þessum leiðangri sem núna stendur yfir en ég get auðvitað ekkert sagt til um magn fyrr en búið er að fara yfir þær niðurstöður,“ segir Birkir.
Til stendur að leiðangrinum ljúki í þessari viku og búast má við að niðurstöður úr honum liggi fyrir einni til tveimur vikum síðar eða í síðasta lagi um miðjan október.
Eftir fremur laka makrílvertíð og enga loðnuveiði bíða margir eftirvæntingarfullir eftir niðurstöðum úr sameiginlegum loðnuleiðangri Íslendinga og Grænlendinga sem nú stendur yfir. Grænlenska hafrannsóknaskipið Tarajoq startaði leiðangrinum í ágúst og 9. september bættist Árni Friðriksson í hópinn. Á ýmsu hefur gengið í leiðangrinum, þar á meðal vélarbilun í Árna Friðrikssyni sem við það heltist úr lestinni. Hafrannsóknastofnun fékk þá grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammasak til þess að klára leiðangurinn með Tarajoq. Niðurstaðna er að vænta um miðjan þennan mánuð.
Nýtt skip
Þess er þó ekki langt að bíða að skipakostur Hafrannsóknastofnunar verði meira í takt við mikilvægi þeirra verkefna sem stofnuninni er falin. Ráðgert er að nýtt rannsóknaskip, Þórunn Þórðardóttir HF, komi til landsins fyrir árslok. Ricardo Garcia, viðskiptastjóri Astilleros Armon skipasmíðastöðvarinnar, sem smíðar nýja skipið, var á IceFish 2024 sýningunni og fullyrti þá að skipið yrði komið í hendur Hafrannsóknastofnunar fyrir jól.
„Þórunn Þórðardóttir HF er stærsta skip sem við höfum smíðað fyrir Íslendinga og einnig það dýrasta. Rannsóknaskip eru almennt gríðarlega vel búin tækjum og mjög flókin í smíðum. Ég get fullyrt að Þórunn Þórðardóttir HF verður hátæknivæddasta fiskrannsóknaskip í heimi. Ef allt gengur samkvæmt áætlunum verður skipið afhent á Spáni í þriðju viku nóvember. Ég á því von á að það verði komið til Íslands fyrir jól. Það verður góð jólagjöf til Íslendinga,“ sagði Garcia.
Nú er bara að sjá hvort þessar dagsetningar standist en þær eiga það til að breytast með litlum fyrirvara eins og dæmin sýna.
Síðasta loðnuvertíð blásin af
Það var mörgum mikil vonbrigði þegar loðnuvertíð var blásin af vertíðina 2023/2024 þrátt fyrir að Hafrannsóknastofnun hefði áður veitt ráðgjöf um veiðar á tæplega 460.000 tonnum. En loðna fannst ekki í veiðanlegu magni þegar til kastanna kom. Ráðgjöfin var endurskoðuð og mælt með að engar veiðar færu fram. Þetta var auðvitað skellur fyrir þjóðarbúið og uppsjávarfyrirtækin því á vertíðinni 2021/2022 veiddu Íslendingar tæp 522 þúsund tonn og vertíðina 2022/2023 nam veiðin 330 þúsund tonnum. Talið er að útflutningsverðmætin sem sköpuðust 2021/2022 hafi numið yfir 50 milljörðum króna.
Skýrist betur í lok leiðangursins
Það er því beðið með eftirvæntingu hvað kemur út úr sameiginlega loðnuleiðangrinum núna og hvort útkoman dugi til þess að gefin verði út ráðgjöf um upphafskvóta. Birkir Bárðarson fiskifræðingur segir að það muni skýrast í kjölfar leiðangursins hvernig staðið verði að málum. Birkir var um borð í Polar Ammassat norðan við Scoresbysund við mælingar þegar rætt var við hann. Að venju var í heildina mest að sjá af ungloðnu suðvestur á grænlenska landgrunninu og kynþroska loðna fannst á Grænlandssundi og þar austur af. Hann vildi ekki tjá sig um í hve miklu magni fyrr en unnið hefði verið upp úr mælingunum. Birkir segir eðlilegt að menn bíði óþreyjufullir eftir niðurstöðum því þær skipti gríðarlega miklu máli í mörgu tilliti.
Vænting um 230.000 tonna vertíð
„Síðasta haust mældum við ungloðnu sem gaf ekki tilefni til að mæla með upphafs aflamarki á þessari vertíð. En í sögulegu samhengi og miðað við það hve mikið við mældum af ungloðnu í fyrra þá er væntingin um vertíðina einhvers staðar í kringum 230.000 tonna vertíð. Þetta þarf auðvitað að skoða með fyrirvara. Það voru svipaðar væntingar fyrir síðustu vertíð sem gaf ekki neitt. Þess vegna höfum við fyrirvara á upphafsráðgjöfinni og ástundum varúðarnálgun því það er talsverð óvissa í þessu. Einu gögnin sem við höfum ennþá til þess að meta líkurnar er þessi mæling frá því í fyrrahaust. Á næstu dögum fáum við niðurstöður úr þessum leiðangri sem núna stendur yfir en ég get auðvitað ekkert sagt til um magn fyrr en búið er að fara yfir þær niðurstöður,“ segir Birkir.
Til stendur að leiðangrinum ljúki í þessari viku og búast má við að niðurstöður úr honum liggi fyrir einni til tveimur vikum síðar eða í síðasta lagi um miðjan október.