Nú stendur yfir fyrsti rannsóknaleiðangurinn í stóru verkefni sem nefnist SI Arctic þar sem markmiðið er að kortleggja hafsvæðin fyrir norðan Svalbarða og í átt að Norðurpólnum, eins langt og ísinn leyfir.
Randi Ingvalsen leiðangursstjóri upplýsir á vefsíðu norsku hafrannsóknastofnunarinnar að á ísilögðum sjónum norður af Svalbarða á 80 gráðum 50 mín. norður hafi þeir fundið auða rák sem var nægilega stór til þess að toga í.
Þarna var botndýpið 1.800 metrar en á 400 metra dýpi fengust fjórir þorskar af stærðinni 64-87 sentimetrar og að auki ein loðna, einn karfi og lítill smokkfiskur auk átu sem sýndi að þarna var eitthvað fyrir fisk að éta.
Að finna þorsk á þessu svæði kom leiðangursstjóranum óvart. „Þorskur heldur sig yfirleitt við botninn á grynnri svæðum þannig að við átti ekki von á að finna hann í Norður-Íshafinu um 1.400 metra yfir botni,“ segir Ingvaldsen.