Starfsmenn Hampiðjunnar hafa undanfarin þrjú ár unnið að strandhreinsun einn dag á sumri ásamt umhverfissamtökunum Bláa hernum. Þetta árið varð Krossavík, sem er yst á Reykjanesskaga stutt frá Reykjanesvita og Gunnuhver, fyrir valinu.
Í frétt Hampiðjunnar birtast áhugaverðar upplýsingar um það sem rekur á fjörur landsins en þar sem starfsmenn Hampiðjunnar búa að sérþekkingu á veiðarfærum þá afla þeir upplýsinga sem öðrum er ekki gefið að safna við strandhreinsun sem þessa.
„Það kom á óvart hversu lítið var af nýlegum veiðarfæraúrgangi og það eina sem taldist nýlegt var rifrildi af trollpoka, nokkrir uppblásnir netabelgir og trollkúlur. Þetta sýnir vel hversu sjómenn eru passasamir í dag og það sem lendir í sjónum og rekur burt er vegna skaða á veiðarfærunum en ekki hent vísvitandi. Töluvert var um gamlar kaðlaslitrur og sérstaka athygli vakti fjöldi lítilla kork- og plastflota sem oftast eru kallaðir kleinuhringir og voru notaðir fyrir 3-4 áratugum á síldarreknet. Einnig var töluvert af netahringjum af þorskanetum en þeir voru notaðir fram á byrjun níunda áratugsins eftir að flottógið hóf innreið sína um 1976 og var væntanlega búið að taka yfir markaðinn um 1985. Annað sem fannst var ótengt veiðarfærum og þar mátti sjá alls konar brúsa og brotna kassa, skó og þvíumlíkt,“ segir í umfjöllun um strandhreinsunardaginn.
Starfsmönnum Hampiðjunnar og Bláa hernum barst liðsauki frá alþjóðlegu sjálfboðaliðasamtökunum Seeds sem hafa verið afar virk í hreinsunarstarfi hérlendis með Bláa hernum.