Viðræður Rússa og Norðmanna um kvóta í helstu nytjategundum í Barentshafi á næsta ári eru að hefjast. Óhætt er að segja að þetta svæði hafi aldrei skilað meiri aflaverðmætum en um þessar mundir, að því er fram kemur á vef Verdens Gang.
Ástand nytjastofna í Barentshafi hefur aldrei verið betra frá því Rússar og Norðmenn tóku upp formlegt samstarf um stjórn veiðanna fyrir 40 árum. Úthlutun á kvótum í þorski, ýsu, loðnu, ufsa og grálúðu í ár er talin geta gefið um 10 milljarða norskra króna í aflaverðmæti, sem jafngildi 203 milljörðum ISK, og vísindamenn hafa lagt til aukinn kvóta í þýðingarmestu tegundunum á næsta ári.