Vel hefur gengið hjá togurum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað að undanförnu að því er segir á vef fyrirtækisins.

„Þetta verður ekki mikið betra en þetta, allt fullt af stórum og flottum fiski við bæjardyrnar,“ er haft eftir Þórhalli Jónssyni skipstjóra á Gullveri NS.

„Togararnir hafa verið að gera það gott í vikunni og eru þeir að landa víða. Gullver NS landaði síðastliðinn mánudag á Seyðisfirði í fyrsta sinn eftir slipp. Aflinn var 82 tonn, þar af var mest af þorski eða 69 tonnum. Það þurfti að sigla stutt á miðin þar sem aflinn fékkst allur út á Glettinganesflaki. Gullver hélt strax aftur til veiða og er að landa á Seyðisfirði í dag 75 tonnum, þar af eru 35 tonn þorskur og 33 tonn ýsa. Fiskurinn fékkst á svipuðum slóðum á Glettinganesflaki,“ segir ásvn.is.

Mikill fiskgengd fyrir austan

Þá segir að Vestmannaey hafi á mánudaginn landað í Neskaupstað 60 tonnum af þorski og ýsu sem fékkst í Berufjarðarálnum. Skipið hafi landað 72 tonnum á Djúpavogi í dag eftir að hafa verið á veiðum á Gerpisflakinu. „Það er mikill fiskgengd fyrir austan um þetta leyti og er fiskurinn stór og fallegur,“ er haft eftir Agli Guðna Guðnasyni skipstjóra.

Bergur hefur verið á veiðum við sunnanvert landið í vikunni og landaði 70 tonnum í Vestmannaeyjum á sunnudagi. Var það mest þorskur, ýsa og koli sem veiddist við Pétursey og Höfða, að því er segir á vef Síldarvinnslunnar.

Lítið haft fyrir gullkarfa

„Bergur landaði 66 tonnum í Grindavík gær og var uppistaða aflans gullkarfi og ufsi sem veiddust við Eldey og Fjöllunum. Bergur hélt strax til veiða og er á Pétursey.

„Þetta hefur verið flott vika og veiðar gengið vel. Við fórum út á Reykjanesið og sóttum gullkarfa og var lítið fyrir honum haft enda mikið af karfa. Við erum núna komnir við Eyjar að reyna við þorsk og ýsu,“ er haft eftir Jóni Valgeirssyn skipstjóra á Bergi sem gerður er út af dótturfélaginu Bergi ehf.