„Enn eitt vígið fallið. Segir maður það ekki?“ Þetta sagði Klara Jakobsdóttir, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, eftir marsralli stofnunarinnar var lokið í síðustu viku. Hún var um borð í Gullveri NS ásamt fjórum öðrum vísindakonum frá Hafró, en var í fyrsta sinn sem rannsóknarteymi um borð í togara er fullskipað konum.

Hafrannsóknastofnun vakti athygli á þessu á Facebook-síðu sinni og birti þar mynd af konunum fimm þar sem þær sátu undir mynd af Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta.

„Þetta var svolítið gaman að vera þarna fimm konur,“ segir Klara. „Svo sáum við þarna að í borðsalnum var svo flott mynd af Vigdísi og þá fórum við nú að gantast með þetta að það væri gaman að fá mynd af okkur sitjandi undir myndinni, þessum frumkvöðli í íslenskri kvenréttindabaráttu, og þá vatt þetta svona upp á sig.“

Hún bætti því reyndar við að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem fullt kventeymi hefur verið á rannsóknarskipi, en þetta var í fyrsta sinn sem rannsóknarteymi fullskipað konum var á togara sem tekur þátt í leiðangri sem þessum. Almennt hafi konum samt fjölgað töluvert á Hafrannsóknastofnun á liðnum árum og áratugum.

Breyttar aðstæður

„Aðstæður hafa auðvitað breyst í gegnum áratugina. Ég man þegar ég var þarna á tíunda áratugnum eða í kringum aldamótin, að þá fóru jú konur á sjóinn líka en það heyrði alveg til undantekninga að þær væru að taka þátt í þessum leiðöngrum.“

Hér áður fyrr tóku þær frekar þátt í leiðöngrum á rannsóknarskipunum, Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, en voru síður með á togurunum sem tóku þátt í leiðöngrum.

„Það voru mjög fáar konur sem fóru á togara. Við vorum bara nokkrar. En núna er þetta bara sjálfsagt mál, og það hefur líka ábyggilega með aðstæður á skipunum að gera. Hreinlætisaðstaða og annað hefur batnað til muna. Það skiptir máli.“

Ekki algengt

Jón Sólmundsson leiðangursstjóri fagnar þessari þróun.

„Það hafa samt verið konur á togurum eiginlega alla tíð, einhverjar. Það hafa ekki verið nema held ég tveir kvennatúrar áður á rannsóknaskipum. Svo hafa verið farnir eitthvað tæplega 140 leiðangrar á togurum og þetta var sá fyrsti sem var bara skipaður konum.“

Auk hafrannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar tóku togararnir Breki VE og Gullver NS þátt í þriggja vikna marsralli sem lauk fimmtudaginn 24. mars.

Jón segir slæmt veður hafa gert leiðangursfólki nokkuð erfitt fyrir, einkum fyrir vestan land.

„Jú, það var ansi leiðinlegt. Held að það hafi verið fjórir dagar sem við þurftum að stoppa vegna óveðurs. Við náðum nú samt að klára þetta á áætlun af því það gekk ágætlega fyrir norðan hjá Bjarna Sæmundssyni. Hann kom síðan að hjálpa okkur að klára fyrir vestan. Svo voru smá tafir vegna covid veikinda í byrjun, þannig að það má kallast gott að hafa klárað þetta á svona góðum tíma miðað við aðstæður.“

Næsta rall byrjað

Annars var stutt ralla á milli hjá Hafró. Aðeins fimm dögum eftir að marsrallinu lauk, þriðjudaginn 29. mars, var haldið af stað í netarall og segist Jón vonast til þess að því verði lokið fyrir páska.

Marsrallið hefur einnig verið nefnt togararall, en formlega nefnist leiðangurinn stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum. Netarallið snýst hins vegar um stofnmælingu hrygningarþorsks með þorskanetum. Marsrallið hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti á hverju ári síðan 1985, en netarallið síðan 1996.

Jón segist niðurstöður úr marsrallinu varða verða tilbúnar til kynningar fyrr en eftir páska

„Við erum að fara í netarall núna og á sama tíma er verið að aldursgreina hér í landi úr marsrallinu, þannig að þetta er ekkert að klárast fyrr en eftir páska, held ég.“