„Umbreyting afla í útflutningsverðmæti skiptir sköpum fyrir þjóðarbúið. Nýting og vinnsla sjávarafurða koma þar við sögu. Eins og vinnslan snýst um virðingu fyrir neytendum og hráefnum, snýst nýtingin um virðingu fyrir hráefnum og umhverfi að sama skapi snýst verðmætasköpunin um virðingu fyrir samfélagi og auðlindum. Fullmargir fullyrða fullmikið um fullvinnslu og fullnýtingu. Samhliða fullyrðingaflaumi ber á óþarfa mismunun, þar sem afurðir eru flokkaðar nokkuð frjálslega sem aðalatriði og aukaatriði,“ segir Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, í pistli á vef stofnunarinnar.
„Vissulega er markmiðið að nýta öll aðföng sem best á sem arðbærastan hátt. Keppikeflið má ekki vera nýtingarhlutfallið eitt og sér, verðmætin knýja þjóðfélagið áfram. Bræðsla, vinnsluaðferð sem notar allt hráefnið, þó heimtur séu ekki mikið umfram fitu og prótein innihald hráefnisins, aflanum er öllum ráðstafað til einnar og sömu vinnsluaðferðarinnar, og ekkert er skilið eftir, sama gildir um heilfrystingu fisks, vinnslu sem skilar háu hlutfalli afurða af hráefni en verðmætin eru tæpast eftirsóknarverð, ef frekari vinnsla er möguleg,“ segir Arnljótur.
Sjá nánar á vef Matís