Frystitogarinn Örvar SK-2 verður seldur úr landi. Viðunandi kauptilboð barst í frystitogarann Örvar SK-2 , sem gerður er út frá Sauðárkróki og frágangur samninga stendur nú yfir, en stefnt að því að skipið verði afhent nýjum eigendum í febrúarmánuði n.k. Í frétt frá FISk Seafood segir að óhjákvæmilega fylgi sölu á skipi uppsagnir sjómanna, en 17 manns séu í áhöfn og að teknu tilliti til skiptakerfis sé 30 manns sagt upp, en uppsagnarfrestur er frá einum og upp í sex mánuði.
Stefna FISK er að draga úr vægi frystingar og vinnslu úti á sjó, en efla í staðinn vinnslu í landi, sem býður upp á fjölbreyttari framleiðslu og betri nýtingu alls hráefnis. Undirbúningur að þessari breytingu er þegar hafinn m.a. með byggingu þurrkverksmiðju á Sauðárkróki.
Jafnframt á FISK dótturfyrirtæki, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun er snúa að eftirliti og eflingu gæða á lokaafurðum fyrirtækisins og að staðla framleiðsluna sem mest. Einnig eru í gangi rannsóknir og þróun til eflingar á hámarks nýtingu hráefnis FISK-Seafood m.a með aukinni verðmætasköpun úr hliðarhráefni og bættrar umgengni við náttúruauðlindir. Þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til þessa rannsókna- og þróunarfyrirtækis á þessu ári.
Sjá nánar á heimasíðu FISK .