Frystitogarinn Brimnes RE hefur veitt mest af makríl af þeim skipum sem ekki flokkast sem hefðbundin uppsjávarskip. Brimnes er komið með um 1.200 tonna makrílafla, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.

Brimnes RE var um miðja vikuna að makrílveiðum norður af Rauða torginu. Eftir því sem best er vitað er Brimnesið nú eina skipið sem reynir að stunda makrílveiðar sérstaklega. Páll Rúnarsson skipstjóri sagði í samtali við Fiskifréttir að makríllinn væri að hverfa úr íslensku lögsögunni þannig að meginhluti aflans er norsk-íslensk síld en makríll í bland.

Fram kom hjá Páli að þeir myndu hætta fljótlega ef makrílveiðin færi ekki að aukast. ,,Ég vona að framhald verði á makrílveiðum okkar á næsta ári. Ég vona einnig að Íslendingar fari ekki að semja af sér í viðræðum strandríkja þegar tekin verður ákvörðun um stjórn makrílveiða á næsta ári. Hingað gekk gríðarlegt magn af makríl í sumar og útbreiðsla hans er einnig mikil. Við eigum að veiða þennan fisk af fullum krafti,“ sagði Páll Rúnarsson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.