Færeyingar hafa sóst eftir að fá að stunda rækjuveiðar innan íslenskrar  lögsögu á Dohrnbanka og jafnframt að fá að nýta rækjuveiðiheimildir Íslendinga á Flæmingjagrunni sem íslensk skip hafa ekki nýtt undanfarin ár.

Þessar óskir komu fram í tengslum við gerð fiskveiðisamnings milli ríkjanna sem sjávarútvegsráðherrar þeirra undirrituðu í Þórshöfn í Færeyjum í gær.

Færeyingar óskuðu eftir því að Ísland tæki til skoðunar að færeyskum skipum yrði heimilt að stunda takmarkaðar rækjuveiðar innan lögsögu Íslands við landhelgismörkinn milli Íslands og Grænlands, eða á svonefndum Dohrnbanka. Jafnframt lýstu Færeyingar yfir áhuga á að fá að nýta heimild Íslands til veiða á rækju á Flæmingjagrunni (NAFO svæði 3L), komi til þess að íslensk skip nýti ekki heimildir sínar á þessu ári.

Í frétt frá íslenska sjávarútvegsráðuneytinu segir að Ísland muni taka beiðni Færeyinga í þessum efnum til skoðunar.