Hjálmar Höskuldur Hjálmarsson, grásleppusjómaður á Hofsósi, er byrjaður að undirbúa málshöfðun á hendur sjávarútvegsráðherra vegna skyndilegrar stöðvunar á grásleppuveiðum.
„Manni finnst þetta verulega koma aftan að mönnum. Mér sýnast allar líkur á því að þeir séu búnir að skapa ríkinu skaðabótaábyrgð,“ segir Hjálmar.
Hann hefur haft samband við lögmenn sem segja að einn þurfi að vera skráður fyrir málshöfðun, enda þótt um hópmálsókn verði að ræða. Hvort það verði hann sem verður skráður fyrir henni komi svo í ljós.
„Ætli það sé ekki hálf stéttin, alla vega tvö hundruð manns,“ segir Hjálmar, spurður um hve margir séu að íhuga málsókn. „Það væru þá margir milljarðar ef svo er. Maður er búinn að vera í allan vetur að kljást við vélarbilun. Svo var allt orðið klárt og var búinn að vera með leyfi opið í tvo sólarhringa, en var ekki búinn að klára að leggja þegar þessu var kippt af mér.“
Umdeild ráðgjöf
Grásleppuveiðar eru margir hverjir afar ósáttir við að veiðarnar hafi verið stöðvaðar nú í byrjun vikunnar þegar ljóst var orðið að heildaraflinn væri óðum að nálgast það hámark sem Hafrannsóknastofnun taldi ráðlagt að veiða á þessari vertíð.
Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir árið 2020 hljóðar upp á 4.646 tonn, en árið áður var ráðgjöfin 4.805 tonn og lækkunin því töluverð milli ára þrátt fyrir að stofnvísitala hrognkelsa hafi hækkað á milli sömu ára.
„Þetta er bara ráðgjöf og þegar veiðin er svona mikið meiri þá er það sterk vísbending fyrir ráðherrann að skoða það einfaldlega að auka heildaraflann,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
„Við skulum átta okkur á því að vísitalan samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar jókst á milli ára um 17 prósent, en það sem við berum úr býtum er tillaga um lægri heildarafla á þessu ári heldur en í fyrra. Síðan þegar veiðin er svona gríðarleg, þá eru skilaboðin skýr fyrir ráðherrann að víkja frá ráðgjöfinni og auka heildaraflann.“
Breytt viðmiðunargildi
Hafrannsóknastofnun skýrir lækkun ráðgjafarinnar með því að viðmiðunargildi ráðgjafarreglu hafi verið leiðrétt. Um breytta aðferðafræði er vísað í ritrýnda grein eftir James Kennedy og Sigurð Jónsson frá árinu 2017, en þeir eru báðir fiskifræðingar á Hafrannsóknastofnun.
Viðmiðunargildið er notað við útreikning ráðgjafarinnar, en þessi breyting varð til þess að ráðgjöfin varð 4.646 tonn í staðinn fyrir 5.200 tonn sem hún hefði verið samkvæmt eldra viðmiðunargildi. Það hefði gjörbreytt stöðunni nú þegar aflabrögðin hafa verið óvenjugóð.
Axel Helgason, grásleppusjómaður og fyrrverandi formaður Landssambands smábátaeigenda, gagnrýnir harðlega þau gögn sem Hafrannsóknastofnun byggir á og hefur leitað skýringa hjá stofnuninni.
„Nú er búið að stöðva veiðarnar sem kemur sér afar illa fyrir margar útgerðir og er fordæmalaust,“ segir Axel í bréfi til Guðmundar Óskarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.
Skorar á Hafró
Hann skorar á Guðmund „að leggjast strax í vinnu við að skoða hvort ég hafi ekki sett hér fram réttmætar ábendingar um að aflatölur frá árunum 1985 til 2012 séu rangt reiknaðar. Hafi ég rétt fyrir mér, þá er líklegt að ráðgjöfin ætti að vera um 6.000 tonn eins og ég hef áður sagt, þó að þá hafi það verið út frá öðrum forsendum (útflutningstölum). Þess skerðing veldur rúmlega 300 miljóna tekjutapi þeirra sem stunda þessar veiðar eða í ár og þeir komast ekki á hlutabótaleiðina eða önnur bótakerfi vegna skerðingarinnar, ábyrgð ykkar er mikil.“
Axel segir, í spjalli við Fiskifréttir, að tölur sem koma beint frá framleiðendum grásleppuafurða séu nákvæmari gögn en þau sem Hafró notast við. Hann hefur komið þessum tölum til Hafrannsóknastofnunar, sem sér þó ekki ástæðu til að breyta ráðgjöfinni.
Hann segir að Hafró miði við að 425 kíló af óslægðri grásleppu þurfi í hverja tunnu, en framleiðendur sem hann hefur talað við segi allir að meðaltalið sé 530 kíló.
„Frá því við fórum að landa grásleppu heilli árið 2013 þá hefur nýtingartalan sem framleiðendur eru með verið sú sama nánast upp á brot úr prósentu. Það er ekkert sem bendir til þess að hún hafi verið einhver önnur nema það að hún hafi hugsanlega verið lélegri þegar við vorum með miklu fleiri og smærri verkendur.“
Tregða vísindanna
Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun, viðurkennir fúslega að gögn stofnunarinnar um grásleppuveiðar séu ófullkomin.
„Gögnin sem við erum með eru veik og léleg og þess vegna erum við alltaf tilbúnir í samtal enda höfum við unnið þetta í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda í gegnum tíðina.“
Hann segir stofnunina engu að síður ekki geta breytt forsendum ráðgjafarinnar fyrirvaralaust þótt nýjar tölur komi fram.
„Það verður að vera einhver tregða í þessu hjá okkur. Við verðum að nota bestu vísindagögn sem við höfum hverju sinni og yfirförum þau gögn sem við fáum gaumgæfilega. En við erum alltaf tilbúnir að gera breytingar ef við teljum þess þörf og sjáum rök fyrir því.“