Mikil ógn steðjar að norskum villtum laxastofnum og allar helstu ástæður hennar verða raktar til laxeldis í sjókvíum. Erfðablöndun er þegar orðin útbreidd og mikil.
Þetta er niðurstaða sérstakrar vísindanefndar í árlegri skýrslu um ástand villts lax í Noregi, sem er nýbirt. Að vinnunni koma 13 vísindamenn frá sjö stofnunum og háskólum í Noregi, sem unnu úttektina á vegum norskra umhverfisyfirvalda. Verkefni þeirra er að meta ástand laxastofnanna og þær ógnir sem að þeim stafa, birta ráðgjöf um veiði á vísindalegum grunni og annað sem kemur að notum við umgengni við þá. Nefndin er sjálfstæð og þeir sem hana skipa starfa ekki innan hennar í nafni þeirra stofnana eða háskóla sem þeir koma frá.
Helmingurinn þegar tapaður
Síðastliðinn áratug hafa mun færri laxar snúið til baka úr hafi en áður þekktist. Árið 2016 eru þeir taldir hafa verið um það bil 470.000 sem er aðeins helmingur þess sem gekk í árnar á níunda áratugnum. Þrátt fyrir það snúa ennþá nægilega margir laxar til baka til að tryggja hrygningu í stórum hluta þeirra vatnakerfa sem fóstra laxastofna, og er það þakkað því að sókn í stofnana var takmörkuð verulega þegar ljóst var hvert stefndi. Lifun laxa í hafinu er talin mun lakari en áður var, en því til viðbótar er það mannshöndin sem hefur verið afkastamikil við að fækka laxinum – mismikið eftir svæðum þó.
Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að slysasleppingar frá sjókvíaeldi á laxi sé langstærsta ógnin við villtu laxastofnana í Noregi. Erfðablöndun í hrygningu villtra laxa og eldislax hefur verið staðfest í fjölda áa, segir í niðurstöðum nefndarinnar. Erfðabreytingarnar sem raktar eru til hennar munu nær örugglega ekki ganga til baka, segir þar einnig og er vísað í fjölda rannsókna þar sem fullyrt er að afkvæmi villtra laxa og eldislaxa séu síður líklegir til að spjara sig í villtri náttúru og tíni því tölunni í hafinu.
Laxalús er talin önnur helsta ógnin við laxastofnana og í fyrsta sinn treysta nefndarmenn sér til að staðfesta að áhrif hennar ná til laxastofna um allan Noreg. Einn af hverjum tíu villtum löxum í Noregi eru taldir hafa tapast árlega á tímabilinu 2010 til 2014 – eða um 50.000 laxar árlega. Af öðrum sýkingum frá laxeldi í sjókvíum er jafnframt talin ógn við villta laxinn, en litlar rannsóknir hafa verið gerðar sem geta staðfest það.
Góðu fréttirnar eru þær að neikvæð áhrif ofveiði, roðflyðrusýkingar (Gyrodactylus salaris) í laxeldi, súrnunar vatns vegna iðnaðarmengunar og orkutengdra framkvæmda í norskum ám eru komin fram og ekki líkleg til að hafa frekari neikvæð áhrif, segir í þeim hluta skýrslunnar sem má kalla jákvæðastan. En mótvægisaðgerðir í gegnum árin eru taldar hafa skilað þar miklum árangri.
Veiði í sjó
Áherslumunur við veiðar á laxi hérlendis og í Noregi kemur hvað skýrast fram í veiði í sjó. Hér hefur slíkur veiðiskapur verið bannaður með lögum í heilan mannsaldur en það sama verður ekki sagt um Noreg þegar kemur að því hvernig gengið er um auðlindina.
Í þeim kafla skýrslunnar sem fjallar um nýtingu á villtum laxi segir frá því að um 1.500 tonn af laxi voru veidd árlega í sjó á níunda áratugnum en þau eru 500 til 600 árlega síðustu árin. Á tímabilinu 1983 til 1988 er talið að 60% af öllum laxi sem snéri til baka hafi verð veiddur í sjó áður en hann náði að ganga í árnar. Stærsta skrefið við að breyta þessu var þegar reknetaveiði við ströndina var bönnuð árið 1989, og nú er talið að 16% af heildarstofninum hafi verið veiddur í sjó í fyrra.
131.000 laxar á skrá
Norsk fyrirtæki framleiddu 1,2 milljónir tonna af eldislaxi árið 2016. Frá þessum fyrirtækjum var tilkynnt um 131.000 laxa sem sloppið höfðu úr kvíum – samanborið við 212.000 laxa að meðaltali áratuginn á undan. Þessum tölum taka vísindamennirnir með fyrirvara; segja að rannsóknir sanni að tvisvar til fjórum sinnum fleiri laxar séu líklegir til að hafa sloppið en tilkynnt er um.
Stangveiði er vöktuð sérstaklega til að fylgjast með slysasleppingum. Eftir 1989 hafa eldislaxar verið þrjú til níu prósent af þeim löxum sem stangveiðimenn hafa veitt í norskum ám. Í fyrra voru það 4,1%. Sú tölfræði ríkur upp á hverju ári þegar haustar, enda hefur komið í ljós að eldislaxinn gengur mun seinna í árnar en sá villti, eða á þeim tíma sem hrygning er að hefjast og veiði er hætt. Er því ekki talið ósennilegt að mun meira af eldislaxi gangi í norskar ár en tölfræði úr stangveiði bendir til.
En erfðablöndunin er helsta áhyggjuefnið, segja skýrsluhöfundar. Hún er orðin veruleg og mjög mikil víða. Í 61 laxveiðiá hefur slík erfðablöndun verið staðfest af þeim 175 þar sem rannsóknir hafa verið gerðar. Í 54 til viðbótar benda fyrstu rannsóknir til að erfðablöndun sé staðreynd en staðfestingar er beðið. Niðurstaða vísindanefndarinnar er því sú að laxastofnar í 115 laxveiðiám sé þegar erfðablandaður við eldisfisk að meira eða minna leyti.
Sjá nánar hér.