Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri hjá Einhamri Seafood, hrósar starfsfólki sínu óspart. Við höldum áfram með jólablaðsviðtal Fiskifrétta við Öldu.
Með sjómönnum og öllum eru starfsmenn Einhamars Seafood milli sextíu og sjötíu talsins og þar af um það bil 35 í vinnslunni. „Við erum með alveg ótrúlega vandað og dásamlegt starfsfólk og það er alls ekki bara einhver klisja,“ segir Alda.
Einhamar Seafood er fjölskyldufyrirtæki í eigu hjónanna Stefáns Kristjánssonar og Söndru Antonsdóttur.
„Við erum öll eins og ein fjölskylda og pössum vel upp á hvert annað. Við höfum varla misst nokkurn starfsmann í kjölfar rýmingar og náttúruhamfara. Það var bara ein kona sem var nýlega byrjuð sem hætti strax. En allir aðrir komu til baka og eru enn þá með okkur. Það er svo virðingarvert og alls ekki sjálfsagt að ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á hvað mér þykir vænt um það,“ segir Alda.
Allir sneru aftur eftir rýmingu
Þrátt fyrir ótrúlegar aðstæður sem náttúruöflin hafa skapað Grindvíkingum segir Alda að hjá Einhamri Seafood hafi gengið lygilega vel að halda starfsemi sinni og miklu betur en hún hafi þorað að vona. Eins og allir aðrir hafi þau rýmt 10. nóvember í fyrra. Líkt og árið þar á undan hafi vegna kvótastöðu verið búið að ákveða að hafa lokað yfir jólin og hefja aftur störf 9. janúar. Nú þurfti að útvega 22 fjölskyldum, pörum eða einstaklingum húsnæði.Allir utan einn í vinnslunni hjá Einhamri eru útlendingar.
„Við tókum þá ákvörðun að fljúga þeim öllum, sem búsettir voru í Grindavík, til síns heima á kostnað fyrirtækisins, hvort sem þau bjuggu í Taílandi eða Filippseyjum eða Póllandi. Við höfðum þá tíma á meðan til að finna herbergi og íbúðir og leikskólapláss og annað fyrir allt þetta fólk. Það gerðum við og það var hver einasti maður mættur þegar við opnuðum aftur 9. janúar,“ segir Alda.
Ekki lengur hrædd í Grindavík
Síðan þá hefur reksturinn hjá Einhamri Seafood verið í gangi. „Við höfum byrjað að vinna um leið og okkur er hleypt inn í Grindavík og höfum unnið þar til það hefur þurft að rýma. Við höfum einu sinni þurft að rýma á vinnutíma. Um leið og lúðrarnir fóru í gang var bara allir út og allt skilið eftir eins og það var og fiskur á línunni. Þannig að þau sjá hver forgangsröðunin okkar er, hún er sú að koma fólkinu í skjól,“ segir Alda.
Nú er enn einu eldgosinu lokið og landris hafið á ný. „Ég hef tekið þá afstöðu með Stefáni, að ætla að láta á þetta reyna eins og hægt er. Maður tekur hlutunum af ákveðnu æðruleysi, það þýðir ekkert annað,“ segir Alda sem viðurkennir að hafa sjálf verið lafhrædd við að fara til Grindavíkur fyrst eftir rýminguna í nóvember í fyrra.
„Ég ætlaði ekki að þora því ef ég á að segja alveg eins og er. En svo allt í einu kom þetta og þá var enginn ótti lengur og hefur ekki verið,“ segir Alda sem sjálf flutti reyndar úr Grindavík til Hafnarfjarðar fyrir fjórum árum. „Þegar jarðskjálftarnir byrjuðu við Fagradalsfjall þá fluttum við því ég bara hræddist þetta. En núna vinn ég þarna upp á hvern dag.“
Ferskur fiskur til Ástralíu
Einhamar Seaafood gerir út þrjá fimmtán metra og þrjátíu tonna Cleopötrur frá Trefjum; Gísla Súrsson, Auði Vésteinsdóttur og Véstein.
„Við vinnum allt ferskt, þorsk og ýsu og flytjum allt ferskt út með flugi,“ segir Alda. Fiskurinn fer á marga hefðbundna markaði ytra en til gamans má geta að nú er Einhamar Seafood að selja fisk til Ástralíu.
„Það er bara lítill bisness sem við erum að þreifa okkur áfram með en það er skemmtilegt að geta sagt frá því þótt þetta sé nú aðeins í örmynd. Stærstu kaupendur okkar eru í Bretlandi og á Bostonsvæðinu í Bandaríkjunum en við erum að senda til Kanada, Frakklands, Belgíu, Þýskalands, til Sviss, Danmerkur, Svíþjóðar og Tékklands,“ segir Alda.
Þriðji og síðasta hluta jólaviðtalsins við Öldu má finna hér á vef Fiskifrétta. Þar ræðir hún meðal annars félagsskap kvenna í sjávarútvegi sem hún hafði ekki trú á í fyrstu og hvernig það bitnar að ungu fólki í dag að geta ekki sem krakkar stundað alvöru vinnu eins og fyrri kynslóðir.