Norska ríkisútvarpið, NRK, greindi frá því nýverið að vetnisperoxíð, sem notað hefur verið í miklu mæli í Noregi til að eitra fyrir laxalús, sé mun hættulegra en áður hefur verið talið.

Norska rannsóknarmiðstöðin IRIS, sem er óháð og alþjóðleg, hefur birt nýjar niðurstöður rannsókna sinna á áhrifum vetnisperoxíðs á rækju, þar sem fram kemur að jafnvel þótt eitrið sé verulega útþynnt verði rækjur fyrir miklum skaða.

„Helmingurinn af rækjunum drapst eftir að hafa í tvo tíma komist í snertingu við upplausn sem er hundrað sinnum þynnri en það sem notað er í eldi, nefnilega 15 millilítra á hvern lítra,“ hefur NRK eftir Renée Bechmann, sérfræðingi hjá IRIS.

Renée Bechmann kom hingað til lands fyrr á árinu og flutti erindi á Strandbúnaðarráðstefnunni í mars um varnir gegn laxalús. Þar skýrði hún meðal annars frá því að rækja sé sérlega viðkvæm fyrir vetnisperoxíði þegar hún hefur skelskipti. Í tilraunaaðstæðum hafi engri rækju tekist að hafa skelskipti þær tvær vikur sem þær komust í snertingu við vetnisperoxíð, og allar drápust þær sem reyndu það.

Auk ventisperoxíðs voru tvö önnur efni prófuð, sem einnig hafa verið notuð til að losna við lúsasmit.

Rauðátan enn viðkvæmari
Þá skýrði norska Fiskeribladet frá því fyrir skemmstu að rauðáta sé jafnvel enn viðkvæmari en rækja fyrir vetnisperoxíði. Blaðið vitnar í rannsóknir frá norsku Hafrannsóknastofnuninni og Akvaplan Niva,

Rannsóknirnar á áhrifum vetnisperoxíðs á rækju hafa þó verið gagnrýndar, að því er NRK skýrði frá 15. september. Rætt er við líffræðinginn Jan Rune Nordhagen, sem segir margt óljóst um framkvæmd rannsóknarinnar og engan veginn víst að rannsóknaraðstæðurnar séu dæmigerðar fyrir aðstæður í náttúrunni. Nordhagen starfar reyndar hjá Chemco, fyrirtæki sem framleiðir og selur lúsalyf í stórum stíl, en hann bendir á að fyrri rannsóknir hafi sýnt fram á að vetnisperoxíð þynnist mjög hratt út í sjónum og verður hættulítið.

Hvort sem vetnisperoxíðinu er um að kenna, eða einhverju öðru, þá hefur rækjuveiði hrunið við Noregsstrendur undanfarið. Nú veiðist einungis fjórðungur af því sem Norðmenn veiddu af rækju um síðustu aldamót.

Vetnisperoxíð hefur sem fyrr segir verið mikið notað í norsku laxeldi. Þúsundum tonna hefur verið dælt út í sjóinn á árlega undanfarið. Mest fór það upp í 5000 tonn árið 2015 en dregið hefur úr notkuninni síðan þá og var hún komin niður fyrir þúsund tonn árið 2017.

Nýr sjávarútvegsráðherra Noregs, Harald Tom Nesvik, hefur brugðist við þessu og hyggst setja strangari reglur um notkun lúsaeiturs. Til bráðabyrgða vill hann meira að segja banna alla notkun slílkra efna.

„Við sjáum að fleiri vandamál tengjast notkun vetnisperoxíðs og meðhöndlun gegn lús,“ segir hann í fréttatilkynningu. „Þar til við vitum meira leggjum við til að það verði bannað að setja lúsalyf í hafið við eldiskvíar.“

Vetnisperoxíð aldrei verið notað hér
„Vetnisperoxíð (H2O2) hefur aldrei verið notað hér á landi og það stendur ekkert til,“ segir Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun.

Gísli segir eitthvað óljóstvið þessar fréttir frá Noregi varðandi hættuna af vetnisperoxíði. Hann eigi þó eftir að skoða gögnin á bak við þær rannsóknir.

„Það er búið að nota vetnisperoxíð alveg óhemju mikið og í marga áratugi þannig að það kemur mér svolítið á óvart ef það eru að koma upp einhverjar nýjar hliðar sem menn voru ekki búnir að skoða áður. En maður skyldi aldrei segja aldrei. En það hefur ekki verið á dagskrá að nota þetta gegn lús hér heima.“

Tvö önnur lyf, Alpha Max og SLICE, hafa verið notuð gegn laxalús hér við land á síðustu árum. Fisksjúkdómayfirvöld hvetja laxeldisfyrirtækin til að nota samt frekar hrognkelsi eða aðrar lyfjalausar lausnir.

Hvetur til hrognkelsanotkunar
„Við höfum samt verið að hvetja sjókvíastöðvar til að nota meira lyfjalausar lausnir, eins og til dæmis hrognkelsið, en það hefði mátt ganga hraðar fyrir sig,“ segir Gísli.

Hann segir hrognkelsin hafa reynst mjög vel, ekki síst í Færeyjum en einnig hér á landi þar sem þau hafa verið notuð, bæði hjá Arnarlaxi og Arctic Sea Farm.

Stofnfiskur og einnig Hafrannsóknastofnun á Reykjanesi hófu framleiðslu á hrognkelsaseiðum fyrir fjórum árum og útvega nú bæði íslenskum og erlendum eldisfyrirtækjum hrognkelsi í miklu magni.

„Færeyingar hafa verið að taka héðan tvo 40 feta gáma af hrognkelsi í hverri einustu viku og þeir hafa ekki notað lyf síðan í mars 2017, ef ég man rétt. Það stefnir í að vel yfir tvær milljónir seiða (20-30 gr.) fari til Færeyja núna í ár. Það fara 50 þúsund stykki í hverri einustu viku þangað með Eimskip.“