Það er skammt stórra högga í milli hjá danska uppsjávarskipinu Ruth. Fyrir skömmu var skýrt frá því í Fiskifréttum að skipið hefði sett löndunarmet í norsku höfninni Egersund er það kom með 2.150 tonn af síld sem seldist á að jafnvirði 237 milljóna íslenskra króna.

Nú hefur Ruth bætt um betur en í síðustu viku kom skipið til Hirtshals í Danmörku með 2.400 tonn af makríl. Þetta er stærsta löndun á ferskum makríl í Danmörku, að því er fram kemur á vefnum FiskerForum. Skipstjórinn, hinn færeyski Jacob Petersen, segir að þetta sé ekki aðeins stærsta makríllöndun í Danmörku heldur einnig í Noregi, Færeyjum og Skotlandi.

Á færeyska vefnum fiskur.fo segir að aflaverðmæti hjá Ruth í makríltúrnum góða væri líklega milli 19 og 20 milljónir danskar, eða um 320 milljónir íslenskar.

Ruth er stærsta uppsjávarskip Dana og í áhöfn eru 9 manns. Það er 87,8 metrar á lengd, 16,7 metrar á breidd og 3.720 brúttótonn. Skipið er nýsmíðað og hóf veiðar á þessu ári.