„Ég hef nú sagt að ef ég ætti loðnustofninn og vildi tryggja mestu verðmæti hans til langs tíma þá myndi ég alltaf veiða eitthvað á hverju ári,“ segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins í Vestmannaeyjum.

Stefán segir einfaldlega vera mjög mikla óvissu í vísindunum varðandi loðnuna. „Í fyrsta lagi er gríðarlega óvissa í mælingunum, í öðru lagi er ljóst að það er ekkert samhengi milli stærðar hrygningarstofnsins og nýliðunarinnar í uppsjávarfiski. Þannig að lítill hrygningarstofn getur skilað góðri nýliðun og öfugt,“ útskýrir hann.

Að sögn Stefáns verður að horfa til þess hversu mikilvægir markaðir fyrir loðnuna erlendis séu og til þess hversu áríðandi sé að þessi vara sé í boði til að viðhalda áhuga kaupenda.

Viðhalda þarf mörkuðum

„Áhættan er svo lítil ef að svona lítið magn er tekið að það má nánast segja að hún sé engin. Það er gríðarlegt magn tekið úr þessum stofni af fiskum og fuglum og sjávarspendýrum. Ég veit að ég er ekki að tala fyrir alla en ég er að minnsta kosti einn af þeim sem er sannfærður um að það væri mjög gott að gefa út lágmarkskvóta ef búa á til sem mest verðmæti úr þessum nytjastofni,“ segir Stefán sem tekur um leið fram að yfirleitt sé ágætis loðnuveiði fyrir utan nú á síðustu árum.

„Þannig að þarf ekkert að vera úthlutun sem fyllir alveg á alla markaði þegar lítið er af loðnu heldur viðheldur mörkuðunum,“ segir Stefán. Þó að til dæmis 150 þúsund tonn myndu gera mjög mikið fyrir markaði fyrir bæði hæng og hrygnu annars vegar og hins vegar hrogn þá sé hann klár á því að talsvert minna magn myndi duga sem lágmarksúthlutun. Síðan yrði bætt við ef mælingar á stofninum gefi tilefni til þess.

Algerlega réttlætanlegt

Stefán bendir á að Páll Snorrason, framkvæmdastjóri Eskju, hafi nýlega nefnt fimmtíu þúsund tonna lágmarkskvóta í þessu samhengi.

„Ef það eru góðar loðnuvertíðir fyrir framan og aftan 50 þúsund tonn þá er það sjálfsagt alveg nóg. Við erum enn þá að selja loðnuhrogn frá því á vertíðinni 2023. Það verður að gera ráð fyrir því að þegar góð vertíð er að menn framleiði þá talsvert magn og þá geti framleiðendur og kaupendur haldið einhverjar birgðir. Þegar það koma svona tvær vertíðir í röð þar sem ekkert er veitt er það afleitt fyrir markaðinn og fyrir bestu nýtingu á stofninum. Og þegar horft er til þess hversu lítil áhætta er tekin með tiltölulega lítilli úthlutun þá er það algerlega réttlætanlegt í mínum huga,“ segir Stefán.

Alls ekkert út úr kortinu

Stefán segir að það sé að minnsta kosti alveg ljóst að 50 þúsund tonn myndu leysa vel þörfina á eftirspurn á hæng- og hrygnumarkaðnum. „Það myndi ekki leysa hrognamarkaðinn en í hrognunum höfum við mikla afkastagetu til að gera mikið þegar það er sæmileg loðnuvertíð,“ segir hann. Fimmtíu þúsund tonn séu ekki út úr kortinu.

„Við getum ekki ætlast til þess að markaðurinn sé alltaf troðfylltur ef lítið er af fiski en tvímælalaust er það stórmál þegar varan hverfur úr hillum og þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í að vinna úr loðnu og loðnuhrognum snúa sér að einhverju öðru. Menn gefast upp á loðnunni þegar þeir hafa ekki aðgang að hráefninu ár eftir ár,“ segir Stefán.

Forstjórinn bendir á að útgerðarfyrirtækin þurfa alltaf að taka einhverja áhættu og afkoma sjómanna og annarra starfsmanna sveiflist eftir því hvort vertíðin sé stór eða  lítil. „En ef þú ætlar að tryggja verðmæti nytjastofnsins sem best þá er betra að vera með að minnsta kosti eitthvert lágmarks framboð,“ ítrekar hann.

Áhyggjur af skilningsleysi

Loðnubrestur og loðnukvótar eru reyndar ekki það eina sem er Ísfélagsforstjóranum umhugsunarefni um þessar mundir.

„Maður bíður spenntur eftir að heyra hvað þeim sem stjórna landinu dettur í hug með veiðigjaldið,“ segir Stefán og vísar til boðaðra breytinga á veiðigjaldi.

„Ég hef áhyggjur af því því að það virðist annars vegar ekki vera neinn skilningur á því að þetta er mjög fjármagnsfrekur iðnaður, það er uppsjávarveiðar og vinnsla, og hins vegar ekki heldur á því menn hafa í gegnum tíðina talið eðlilegt að þeir sem standa í atvinnurekstri eða kaupa sér hlutabréf geti gert ráð fyrir að hafa einhverja ávöxtun af því fé sem þeir setja í félögin. Ef tekið er tillit til þess við ákvörðun veiðigjalda þá verður örugglega eitthvað annað uppi á teningnum heldur en það sem ég óttast að þessi ríkisstjórn muni komast að niðurstöðu um,“ segir Stefán Friðriksson.