Víkjandi lán frá ríkinu upp á 819 milljónir króna sem veitt var um miðjan síðasta áratug vegna stórskipahafnar á Húsavík stendur nú í um 1,1 milljarði króna.
Eins og fram kom í Fiskifréttum þann 6. desember síðastliðinn og vef blaðsins þann 8. desember hafa embættismenn og sveitarstjórnarfólk í Norðurþingi miklar áhyggjur af þessu stóra láni sem aldrei hefur verið greitt af, því samkvæmt skilmálum þess er ekki borgað inn á það nema hafnarsjóður skili hagnaði. Og það hefur hann ekki gert.
Stefnir í veruleg vandræði
„Þetta getur aðeins endað í hvelli,“ sagði Eiður Pétursson, formaður hafnarsjóðs, í desember um horfurnar hjá hafnarsjóði og þar með sveitarfélaginu sjálfu vegna víkjandi láns sem tekið var til uppbyggingar stórskipahafnar á Húsavík. Lánveitingin var samþykkt með lögum 2013.
„Við þurfum að leggja allt kapp á það á næstu misserum að leggja vinnu í það og að fá þetta lán afskrifað hjá ríkissjóði út af því að þetta mun að lokum valda því að bæði hafnarsjóður og móðurfélagið – það er Norðurþing – munu lenda í verulegum skuldavand ræðum ef einungis reiknast á þetta verðbætur um ókomin ár og aldrei er greitt af því,“ sagði Eiður í desember.
Segir ekkert í bili
Síðan þá hefur Norðurþing verið í viðræðum við fjármálaráðuneytið með það að leiðarljósi að vinda ofan af þessu láni sem heimamenn telja að muni á endanum sliga hafnarsjóðinn. Þessar viðræður munu enn vera á viðkvæmu stigi.
„Við erum bara í samskiptum við ráðuneytið núna og ég ætla ekki að láta hafa meira eftir mér á þessari stundu,“ svarar Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri spurð um stöðu málsins í dag.
„Hafnarsjóður Norðurþings fékk 819 milljóna króna víkjandi lán frá ríkissjóði á árunum 2015-2017. Lánin eru verðbætt frá útborgunardegi og nemur staða þeirra nú um 1,1 milljarði króna,“ segir í svari sem barst nýlega vegna fyrirspurnar Fiskifrétta um stöðu lánsins frá því fyrir þremur mánuðum.