Torfa af smáufsa fraus inni í vogi á eyjunni Lovund í Nordland í Norður-Noregi í síðasta mánuði þegar snögglega kólnaði í veðri.

Smáufsinn hafði synt í miklum mæli inn í grunnan voginn á flótta undan skarfi sem gæddi sér á honum meðan tækifæri gafst. Frostið fór svo niður í 7 til 8 gráður á skömmum tíma í hvassri austanátt. Vogurinn botnfraus á svipstundu og ufsinn hafði ekki ráðrúm til að koma sér út á opið haf á ný.

Sjónarvottar á eyjunni sögðust aldrei hafa orðið vitni að öðru eins. Þó er það vel þekkt að afræningjar, eins og til dæmis hvalir, reki síld undan sér upp á land.

Vogurinn er vinsæll sjóbaðstaður og vonast er til að hann verði laus við allan grút í sumar þegar sólin fer að verma strandgesti.