Gömul nót frá uppsjávarskipunum Venus og Víkingi hefur fengið nýtt hlutverk í grunni nýja Háskólasjúkrahússins sem verið er að reisa í Reykjavík.
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim hf., skýrði frá þessu á ráðstefnu um framtíð íslensks sjávarútvegs og fiskeldis sem haldin var í Hörpu 22. júní síðastliðinn.
„Eftir að hún lauk sínum líftíma hjá okkur og við gátum ekki notað hana lengur þá endaði hún í grunninum að nýja Háskólasjúkrahúsinu,“ sagði Gréta.
„Þannig getum við saman stuðlað að þessu hringrásarhagkerfi, og fundið not fyrir hlutina lengur en við gerðum ráð fyrir í upphafi.“
Að sögn Árna Skúlasonar, framleiðslustjóra hjá Hampiðjunni, er algengt að gömul net fái framhaldslíf í húsgrunnum.
„Þetta er bara til að verja vinnusvæðið. Svo þegar þeir eru búnir þá taka þeir þetta bara með sér og nota í næstu byggingu.“
Hann segir þennan tiltekna grunn reyndar óvenju stóran, og þá kemur sér vel að vera með stór og þung uppsjávarveiðarfæri. Nótin uppsjávarskipum getur verið 25 til 30 tonn og þarna í grunni Háskólasjúkrahússins er líklega um 10 tonn af neti.
Árni segir Hampiðjuna vart hafa undan við að útvega veiðarfæri í húsgrunna.
„Það eru stöðugar hringingar og af því það hefur ekki verið nein loðnuveiði síðustu árin fyrr en í vetur, þá er búið að hreinsa allt upp. Það er langur biðlisti af mönnum sem vilja fá svona.“