Því er spáð að framboð á fiski og öðru sjávarfangi í heiminum aukist um 2,1% í ár. Þar munar mest um 5,8% aukningu í fiskeldi hvers konar en lítilsháttar samdráttur er talinn verða í fiskveiðum. Þetta kemur fram í nýrri árlegri skýrslu frá FAO um horfur í matvælaframleiðslu.

Gert er ráð fyrir að heildarframleiðsla fiskeldis og heimsaflinn í ár verði 157,3 milljónir tonna en var 154 milljónir tonna árið 2011 og 148,5 milljónir tonna árið 2010.

Áætlað er að fiskeldi fari úr 63,6 milljónum tonna árið 2011 í 67,3 milljónir tonna í ár. Fiskveiðar verði hins vegar um 90 milljónir tonna í ár en heimsaflinn í fyrra var 90,4 milljónir tonna.

Á sama tíma er áætlað að virði útflutnings sjávarfangs og eldistegunda nemi 138 milljörðum dollara (18 þúsund milljörðum ISK) og hækki um 9,4% frá árinu 2011 og um 27,1% frá árinu 2010.

Samkvæmt upplýsingum FAO er verð á villtum fiski í sögulegu hámarki. Gert er ráð fyrir að verð haldist hátt á árinu.