Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins. Nokkur þessara viðtala munu birtast á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Fyrsta viðtalið er við Beata Angelika Zalewska sem hóf nýlega störf á rannsóknastofu fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Beata er fædd og uppalin í borginni Kalisz sem er um 100 þúsund manna borg í vesturhluta Póllands. Hún lagði stund á háskólanám í haffræði í Gdansk en í náminu er fjallað um hafið og lífríki þess. Náminu lauk hún sl. sumar. Kærasti Beata er Kasper Bartosz Idzikowski en hann hefur búið í Neskaupstað frá sex ára aldri.
Hreifst af bænum og umhverfinu
Beata kom í fyrsta sinn til Neskaupstaðar fyrir fjórum árum og þá strax sagði hún að þar vildi hún eiga heima og starfa.
„Ég hreifst strax af bænum og umhverfinu. Fjörðurinn, fjöllin og friðsældin heilluðu mig. Eins líkaði mér afskaplega vel við fólkið. Ég sá líka að á þessum stað gæti ég fengið starf sem tengdist náminu mínu. Í sannleika sagt vissi ég ekki mikið um Ísland áður en ég kynntist Kasper. Ég hafði þó séð myndir frá landinu, meðal annars myndir af eldgosum og auðvitað fannst mér landið forvitnilegt.“
Gefandi og skemmtilegt starf
Beata hóf störf á rannsóknastofunni síðasta haust og líkar starfið vel. „Ég er mjög ánægð í vinnunni. Það hefur allt gengið eins vel og mögulegt er. Á rannsóknastofunni erum við að fást við ýmis verkefni, við mælum hráefni og afurðir og tökum sýni til að fylgjast með hvort öll tæki í verksmiðjunni vinni eins og til er ætlast. Á venjulegum vinnudegi þarf að greina fjölda sýna. Í vinnsluhléum er unnið við að hreinsa og þrífa allan búnað þannig að allt sé klárt þegar vinnsla hefst á ný. Mér finnst þetta gefandi og skemmtilegt starf. Næsta verkefni hjá mér er að ná tökum á íslenskunni og ég vona að það gangi bæði fljótt og vel,“ segir Beata.