Vegna óvissunnar í Grindavík hefur útgerðar- og vinnslufyrirtækið Stakkavík frestað því að taka formlega við nýjum 30 brúttórúmlesta stálbát, Guðbjörgu GK 9, og verður hann afhentur síðar á árinu. Alls óvíst er hverju vindur fram í Grindavík á næstu vikum og mánuðum og segir Hermann Ólafsson, framkvæmdastjóri Stakkavíkur, að ekkert liggi á því að taka bátinn í notkun við þessar aðstæður. Fyrirtækið gerir út fjóra aðra báta sem henta ágætlega til veiða á aflaheimildum fyrirtækisins.

Enn eitt jákvæðnikastið

Skrokkur Guðbjargar var smíðaður í Tyrklandi eftir teikningum Ráðgarðs skiparáðgjafar en fullkláraður hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur. Fjallað er nánar um bátinn í þessu blaði.

„Ég er að flýja enn eitt húsið. Við vorum komin til Keflavíkur en nú er heitavatnslaust hér og kalt. Við verðum á Selfossi eða í Hafnarfirði þar til hiti kemst á aftur,“ sagði Hermann þegar rætt var við hann í síðustu viku.

Hermann sagði að í einu jákvæðnikastinu hefði hann ákveðið að Guðbjörgu GK yrði siglt inn til Grindavíkur og tekið á móti henni þar með pomp og prakt. Síðan hefðu öll ósköpin dunið yfir. Eftir jarðhræringarnar í nóvember á síðasta ári skemmdist vinnsluhús Stakkavíkur og eftir úttekt á því stóð til að gera það upp. Seinna urðu enn meiri skemmdir á húsinu sem var svo dæmt ónýtt.

Hermann Ólafsson.
Hermann Ólafsson.
© Þorgeir Baldursson (.)

Verður næsta gos inni í bænum?

„Ég er dálítið í þeirri stöðu núna að bíða og sjá hvað verður. Það eru ekki endilega miklar líkur á því að þessari eldgosahrinu ljúki innan tíðar. Það virðist safnast aftur og aftur fyrir í þessu kvikuhólfi og ef við erum að hefja göngu okkar í gegnum langt tímabil umbrota þá er staðan ekki björt. En þetta skýrist væntanlega betur á næstu mánuðum. Nú gaus stuttu gosi og hólfið tæmdist. Ef það flæðir aftur inn í það þá kemur væntanlega annað gos. Nú þekkja vísindamenn orðið ganginn í þessu. Það gaus fyrst við Skógfell næst Reykjanesbrautinni, svo neðarlega í Hagafelli og alveg inn í Grindavík. Svo kom þetta gos núna aftur í Skógfelli. Fjórða gosið gæti því allt eins orðið inni í Grindavík,“ segir Hermann.

Nóg af bátum til að veiða kvótann

Út af allri þessari óvissu verður nýi báturinn tekinn upp og á þurrt land í Njarðvík. Svo verður bara beðið og séð hver framvindan verður.

„Báturinn verður inni í slippnum og formleg afhending fer ekki fram strax. Ég þarf ekkert sérstaklega á honum að halda í sjálfu sér núna. Ég á bátinn en ég ætla ekkert að fara að skíta hann út fyrr en 1. september á nýju kvótaári. Nú er engin verkun hjá mér og ég er með nóg af bátum til að veiða kvótann.“

Stakkavík gerir út Óla á Stað GK, Geirfugl GK, Hópsnes GK og Gulltopp GK.

„Ef við hefðum fengið að byggja Stakkavík upp sá ég fyrir mér að þetta hefði allt verið komið í gang í apríl eða maí. Þá ætlaði ég að vinna þennan fisk þar en hlutirnir eru alltaf að breytast og kannski endar þetta með því að við vinnum alls engan fisk í Grindavík. Það eru eiginlega meiri líkur til þess núna nema það komi allt í einu upp allt önnur staða.“