Arnarlax fjárfesti nýlega fyrir rúman milljarð í tveimur stærstu fóðurprömmum sem hafa komið til landsins. Hvor um sig taka 900 tonn af fóðri og báðir eru þeir með tvinnaflrás með möguleika á landtengingu. Þeir hafa nú þegar verið teknir í notkun.

Víkingur Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Arnarlaxi, segir að með nýju fóðurprömmunum tveimur, Steinborg og Svanborg, séu nú alls sjö fóðurprammar í flota fyrirtækisins sem hafa geymslu fyrir samtals 3.600 tonn af fóðri.

„Þetta er fjárfesting vel yfir milljarð króna samtals. Hvor prammi tekur yfir 900 tonn af fóðri og þetta eru því stærstu fóðurprammar á Íslandi. Þær stærstu sem voru fyrir í flotanum taka 600 tonn af fóðri og þetta er því umtalsverð stækkun,“ segir Víkingur.

Dregnir frá Noregi og Eistlandi

Fóðurgjöfin er breytileg eftir árstímum en einna mest yfir sumartímann en minnkar yfir veturinn. Annar pramminn var smíðaður í Noregi en hinn í Eistlandi. Þeir voru dregnir yfir hafið til Íslands af dráttarbát. Prammarnir eru vélarlausir og eru festir við akkeri við eldissvæðið. Á milli tíu til tólf kvíar eru á eldissvæði.

Arnarlax er stærsti framleiðandi eldislax á landinu og hefur fyrirtækið leyfi fyrir eldi á rúmlega 25 þúsund tonnum af laxi á sjö svæðum í Arnarfirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Stærsti eigandi Arnarlax er norska félagið SalMar með ríflega 51% hlut. Íslenskir eigendur eru Íslandsbanki með 7,9% hlut og Gyða ehf. 3,2% hlut. Gyða ehf. er í eigu Kjartans Ólafssonar, fyrrum stjórnarformanns Arnarlax.