Fóðurpramminn Kambsnes sem smíðaður var í Szczecin í Póllandi af færeyska fyrirtækinu GroAqua kom í Ísafjarðardjúp á miðvikudaginn í síðustu viku. Kambsnes mun þola að minnsta kosti ellefu metra ölduhæð.

„Það er lífæð okkar að koma fóðri í fiskana alla daga ársins. Hvernig sem viðrar getum við gefið úr þessum pramma,“ segir Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells.

„Pramminn er fjarstýrður frá landi og er yfirleitt mannlaus. En um borð er aðstaða fyrir strákana sem eru að vinna á kvíunum. Það er eldhús og bað og borðstofa svo þeir geta fengið sér hádegismat þegar þeir eru úti á kvíunum á daginn. Og það er verkstæði og lager þannig að þetta er vinnuaðstaða líka,“ segir Gauti.

Misstu samfelluna áður

Fyrst og fremst er Kambsnes þó fóðurlager og dæling á fóðri fyrir fiskinn.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells. Mynd/Aðsend
Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells. Mynd/Aðsend

„Þannig að hvernig sem viðrar er alltaf hægt að gefa fiskinum, sem er mikilvægt að svelti ekki. Áður fyrr vorum við að blása þessu frá bátunum og ef það var bræla komust menn ekki út og þá misstum við samfelluna í gjöfinni,“ segir Gauti.

Ýmsar nýjungar eru í Kambsnesi að sögn Gauta. „Hann  er útbúinn ljósavélum til að knýja hann áfram. Síðan rafhlöðukerfi – hybrid­-kerfi – þannig að ljósavélarnar hlaða inn á batterí sem síðan sér prammanum fyrir orku. Þær þurfa því aðeins að ganga kannski tvo tíma í staðinn fyrir allan sólarhringinn,“ segir hann.

Sérstaklega ánægjulegt kveður Gauti vera að Háafell fékk fimm milljóna króna styrk úr Orkusjóði vegna hybrid-kerfisins og landtengingarinnar í prammanum.

„Það flýtir mikið fyrir allri svona þróun,“ segir hann.

Búinn fyrir landtengingu síðar

Komið hefur fram að önnur nýjung í prammanum sé sjóinntak fyrir vatnsfóðrun. Háafell fylgist náið með þróun á henni og stefni á að skipta yfir í hana þegar færi gefist. Þá er Kambsnes búið landtengisspenni.

Um 150 manns þáðu boð um að skoða nýja prammann í Ísafjarðarhöfn. Mynd/Aðsend
Um 150 manns þáðu boð um að skoða nýja prammann í Ísafjarðarhöfn. Mynd/Aðsend

„Á þessum stað sem við erum að setja prammann er ekki hægt að setja rafmagn í land enn sem komið er en mögulega verður það hægt í framtíðinni og þá erum við tilbúnir að tengja,“ segir Gauti.

Háafell er einmitt með einn landtengdan fóðurpramma í sinni þjónustu nú þegar. Sá var smíðaður af Aguagroup í Noregi og er dálítið minni að sögn Gauta, eða 450 tonna.

„Hann kom í fyrra og er staðsettur inni í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Hann er landtengdur og því alfarið knúinn rafmagni úr landi. Þá erum við bara á grænni orku.,“ segir Gauti.

Átta ankeriskeðjur halda prammanum

Kambsnesi verður sem fyrr segir á Kofradýpi utan Súðavíkurhlíð í Ísafjarðardjúpi.

„Hann er settur í átta ankeriskeðjur sem halda honum á sínum stað og sinnir þar tíu kvíum,“ segir Gauti. Fóðurskip leggjast utan á prammann, sem er með dekk á alla kanta, og dæla fóðri í sílóin. Stærð fiskanna í kvíunum ræður hversu oft þarf að fylla á prammann.

Hundraða milljóna króna fjárfesting

„Í byrjun þegar fiskurinn er smár dugar fóðrið lengi en næsta ár dugar það kannski í tvær vikur. Þá þarf skipið að koma nokkuð ört því þá er fiskurinn orðinn stór og étur mikið,“ segir Gauti.

Vegna veðurs þurfti að fara með Kambsnes í var í Eyjafirði í nokkra daga eftir siglinguna frá Póllandi, sem gekk að öðru leyti mjög vel.

Pramminn, ásamt tvíbytnunni Erni ÍS, var síðan til sýnis í Ísafjarðarhöfn áður en haldið var daginn eftir á Kofradýpi. Gauti segir um 150 manns hafa komið og skoðað þessar öflugu viðbætur við flota Háafells. Fyrir er fyrirtækið með vinnubátinn Kofra og fóðurprammann Ögurnes. „Þetta er heljarinnar fjárfesting, hún hleypur á hundruðum milljóna króna ,“ svarar framkvæmdastjóri Háafells spurður um kostnaðinn við nýja prammann.

Vegna veðurs var farið með Kambnes í var í Eyjafirði eftir siglingu frá smíðastað í Póllandi. Mynd/Þorgeir Baldursson
Vegna veðurs var farið með Kambnes í var í Eyjafirði eftir siglingu frá smíðastað í Póllandi. Mynd/Þorgeir Baldursson