Uppsjávarskipin hafa mörg hver verið að veiðum á makríl fyrir vestan land sem er óvenjulegt. Ástæðan er of mikill meðafli af síld úti fyrir Austur- og Suðausturlandi. Sumir farmar hafa verið makríll og síld til helminga eða jafnvel meirihlutinn síld.

Meðal uppsjávarskipanna fyrir vestan eru skip Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, Beitir NK og Börkur NK, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Hafa þau verið þar við veiðar frá því í gær. Í morgun voru komin um 300 tonn um borð í Beiti en afla beggja skipa hefur verið dælt um borð í hann. Vonast er til að Beitir geti lagt af stað til heimahafnar með góðan afla síðar í dag en þangað er um 30 tíma sigling. Börkur mun hinsvegar halda áfram veiðum vesturfrá.

Bjarni Ólafsson AK, þriðja skipið sem landar makríl og síld til vinnslu í fiskiðjuverinu í Neskaupstað, er við veiðar á austurmiðum og kemur væntanlega til löndunar í kvöld.

Frystitogarinn Barði NK hefur verið á makrílveiðum vestur af landinu og hefur hann nú lokið við að veiða sinn makrílkvótakvóta á vertíðinni.