Alþingi hefur samþykkt lög sem heimilar sjávarútvegsráðherra með reglugerð flutning á aflamarki tiltekinna tegunda frá krókaaflamarksbátum til skipa sem hafa veiðileyfi með aflamark, enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið

Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir meðal annars að í gildandi lögum sé gert ráð fyrir að aflamark megi flytja frá aflamarkskerfi til krókaaflamarkskerfis en ekki öfugt. Þetta fyrirkomulag getur valdið því að aflaheimildir séu vannýttar.

Á árinu 2002 var ufsi settur í aflahlutdeild krókaaflamarksbáta. Síðan þá hafa veiðiheimildir á ufsa fallið niður ónýttar á hverju fiskveiðiári, allt frá 300 að 3.000 tonnum en að meðaltali um 1.300 tonn á hverju fiskveiðiári. Mögulegt er að skip í aflamarkskerfinu hefðu vilja og getu til að veiða þennan ufsa en heimild skortir til að flytja veiðiheimildir í aflamarkskerfið. Vannýttar heimildir afla því þjóðarbúinu ekki tekna.

Á sama tímabili hafa að jafnaði 2.600 tonn af aflamarki í ýsu verið leigð árlega frá aflamarkskerfinu til krókaaflamarkskerfisins þar sem langvarandi skortur á ýsuheimildum hefur verið til staðar.

Frá þessu er skýrt á vef LS.