Hið undarlegasta fley birtist á Pollinum á Ísafirði í fyrradag. Segir í færslu á Facebook-síðu Ísafjarðarhafnar að það hafi vakið forvitni margra.
„Einhverjir hafa vafalaust rifjað upp að fyrir tveimur árum samþykktu bæjaryfirvöld að skilgreina svæðið í kringum gamla skíðaskálann á Seljalandsdal sem lendingarstað fyrir geimverur. Eru fyrstu gestirnir úr fjarlægum sólkerfum loksins mættir ? Ætli flugleiðsögutækin hafi brugðist þeim í aðfluginu?

Þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna voru ekki neinir geimferðalangar á ferð. Fleyið heitir Tara Polar Station og mun vera einhvers konar fljótandi rannsóknarstofa þar sem allra handa vísinda-, fræða- og listafólk mun hafa aðstöðu til að stúdera norðurheimskautið og nánasta umhverfi þess. Lesa má nánar um fleyið hér.