Heildarúthlutun byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári er 7.308 þorskígildistonn, að því er fram kemur á vefnum bb.is . Mest fer til Norðurlands eða 2.662 tonn, Vestfirðingar fá 1.564 tonn í sinn hlut, 1.238 tonn fara til Vesturlands, 1.214 tonn til Austurlands, 326 tonn á Reykjanes og 304 tonn til Suðurlands. Það sveitarfélag sem fær úthlutuðum mestum byggðakvóta er Snæfellsbær, 742 tonnum. Ísafjarðarbær fylgir fast á eftir með 739 tonn. Það byggðarlag sem fær mestan byggðakvóta er Flateyri.
Byggðakvóta er úthlutað til byggðarlaga sem hafa færri en 2.000 íbúa og hafa lent í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og/eða vinnslu á botnfiski. Byggðalög sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa eiga einnig rétt á byggðakvóta, segir ennfremur á vefnum bb.is.