Rannsóknir á erfðaefnum þorsks sem veiðist við Grænland hafa leitt í ljós að þorskstofnarnir við landið eru að minnsta kosti fjórir og æxlast ekki innbyrðis. Þrír þeirra hrygna við Grænland en sá fjórði er íslenskur og heldur sig stundum við Grænland en hrygnir þar ekki.
Vísindamaðurinn Nina Overgaard Therkildsen, sem vann þetta rannsóknaverkefni, bar erfðaefni úr núlifandi fiski, sem bæði sjómenn og rannsóknamenn frá Náttúrufræðistofnun Grænlands veiddu, saman við DNA prufur sem áður höfðu verið teknar úr þorski við Grænland.
Í frétt á vef grænlenska útvarpsins segir að þessi nýja vitneskja hafi leitt til þess að Alþjóðahafrannsóknaráðið hafi lagt til 8.000 tonna kvóta innan skerja á árinu 2013. Þá er verið að útbúa aðferð til þess að prófa á skjótan hátt af hvaða stofni veiddur fiskur er.
Þess má geta að Therkildsen fékk nýlega verðlaunin ,,Young Researcher Award“ sem Tækniháskóli Danmerkur veitir ungum vísindamönnum fyrir athyglisverðar rannsóknir. Verðlaunin fékk hún fyrir rannsóknir sínar á erfðaefni þorsks við Grænland.