Mikil fjölmiðlaumræða á Írlandi virðist hafa átt drjúgan þátt í því að matvöruverslanir í Dublin hættu að svindla á viðskiptavinum sínum með því að merkja annan hvítfisk sem þorsk í söluborðum sínum. Skyndibitastaðir hafa þó ekki látið sér segjast og haga sér áfram með sama hætti og áður.
Erfðafræðirannsókn sem Salford háskóli gekkst fyrir í Dublin árið 2010 leiddi í ljós að 28% þess fisks sem rannsakaður var og boðinn var til sölu sem þorskur reyndist af öðrum tegundum. Þetta olli mikilli hneykslun og gerðu allir helstu fjölmiðlar á Írlandi málinu rækileg skil.
Ári síðar fóru rannsakendur aftur í sömu verslanirnar til þess að kanna hvort eitthvað hefði breyst. Niðurstöður þeirrar rannsóknar hafa nú verið birtar, en þær leiddu í ljós að ekkert svindl af þessu tagi viðgengst lengur í viðkomandi matvörubúðum.
Aftur á móti hafði lítið breyst hjá skyndibitastöðunum (take-away). Þar voru rangar upplýsingar ennþá 42% fisksins samanborið við 50% árið 2010.
Fréttavefurinn FISHupdate.com skýrir frá þessu.