Undir lok síðustu aldar óx umræða um þörfina á bættri umgengni um auðlindir sjávar.  Tilefnið kom ekki til af góðu, því ofveiði var (og er) víða vandamál.  Í þessu umhverfi voru búnir til staðlar og vottunarkerfi fyrir sjálfbærar fiskveiðar, sem fengu nafnið Marine Stewardship Council (MSC).  Fiskur úr vottuðum sjálfbærum veiðum með fullan rekjanleika gat þá borið umhverfismerki MSC sem staðfestir uppruna í sjálfbærum fiskveiðum.

Hugsjónin á bakvið MSC er að með aukinni eftirspurn eftir sjávarafurðum úr vottuðum sjálfbært nýttum stofnum þá verði allar fiskveiðar heimsins sjálfbærar í framtíðinni.

Samkvæmt fjölmörgum skoðanakönnunum þá vex stöðugt umhverfisvitund og þekking neytenda á umhverfismerkjum þ.m.t MSC.  Hér vísar unga fólkið veginn með auknum áhuga.

Í dag er um 15% af lönduðum afla í heiminum með MSC vottun. Um 94% af veiðum sem vottast samkvæmt staðli MSC þurfa að ljúka frekari umbótum á 5 ára vottunartímabilinu.  Í vottuðum veiðum eru skráðar nálægt 2000 umbætur og MSC merktar sjávarafurðir eru seldar í yfir 100 löndum.

Að auki er fjöldi veiða í svokölluðu “Fisheries Improvements Projects” (FIP) ferli og eru að vinna að úrbótum til að geta svo öðlast vottun.  Þannig hefur markaðseftirspurn hvatt til fjölmargra úrbóta í fiskveiðum.

Rekjanleiki og MSC

Breska blaðið The Guardian birti nýverið yfirlit yfir 44 nýlegar rannsóknir, sem náðu til ríflega 90 landa, þar sem yfir 9.900 sýni voru tekin í veitingahúsum, fisksölum og stórmörkuðum .  Þannig var ekki rétt fisktegund í 36% af sýnum og þ.a.l með ranga merkingu.

Til samanburðar má nefna að MSC hefur á síðastliðnum áratug látið framkvæma á annað þúsund DNA prófanir á MSC merktri neytendavöru í 18 löndum.   Hér var yfir 99% með rétta merkingu og innan við 1% af MSC merktum sjávarafurðum eru ranglega merktar, þ.e ekki með réttuinnihaldi.

Það er sláandi munur á því hvort tæplega 1% af sjávarafurðum sé rangt merkt eða hvort sú tala sé 36%, eins og kynnt var í The Guardian. Þessi munur sýnir að sjávarútvegur sem notar MSC er ekki einungis að selja afurðir úr vottuðum sjálfbærum veiðum heldur er einnig með tryggari rekjanleika þar sem innihald er í samræmi við merkingar.

Sótspor

Þegar fiskstofnar verða stórir þá eykst gjarnan afli á sóknareiningu og dæmi um að skip og bátar veiði jafnvel  2-3 sinnum meiri afla á sóknareiningu.  Við það geta sjálfbærar veiðar skilað mun lægra sótspori á hvert kg af lönduðum afla samanborið við þegar sami fiskstofn er lítill.  Þannig geta sjálfbærar veiðar stuðlað að minna sótspori sjávarafurða.

Fjármál

Að lágmarka áhættu er mikilvægt stef í flestum atvinnugreinum, þar með talið í lánastarfsemi og fjárfestingum.  Birgjakeðja úr vottuðum sjálfbærum veiðum hefur meiri fyrirsjánleika til framtíðar en rekstur sem byggir á afurðum úr óvottuðum, ofveiddum fiskstofnum.

Sjávarútvegsfyrirtæki, líkt og önnur fyrirtæki þ.m.t  bankar gefa út og selja til fjárfesta skuldabréf til fjármögnunar rekstrar síns.   Umhverfissjónarmið eru farin að hafa áhrif á eftirspurn fjárfesta, sem og lánveitingu til fyrirtækja. Staðlar og vottun á umhverfisþáttum er þá notað sem mælikvarði.  Það má færa rök fyrir því að eftirspurn eftir grænum valkostum í fjárfestingum  er vaxandi.  Þannig má jafnframt færa rök fyrir að umhverfissjónarmið geti haft áhrif á bæði verð lána og gengi skuldabréfa.

Í sjávarútvegi eru “grænu“ skuldabréfin og lánin gjarnan nefnd „blá“.   Oft er viðmið fyrir blárri flokkun að yfir 90% af veltu fyrirtækja sé úr MSC vottuðum veiðum, en aðrar vottanir eru fyrir fiskeldi t.d. ASC, GAA og  GlobalGap.

Með þessu eru fjármálastofninar að styðja við sjálfbæra þróun og hvetja fyrirtækin til þáttöku í henni. Fyrir fyrirtækin er þetta enn einn ábatinn af því að fjárfesta í sjálfbærnis- og umhverfisvottunum.

Ísland

Sjávarútvegur á Íslandi hefur í gegnum félagið Icelandic Sustainable  Fisheries (ISF)  haft forystu í umhverfisvottun fiskveiða, sem m.a. sést af því að flestir helstu nytjastofnar hafa farið í gegnum MSC fiskveiðivottun og hafa hingað til alls 19 fiskstofnar fengið vottun. Ísland var fyrsta landið í heiminum með 9 tegundir í MSC vottun og ennþá eitt landa með vottun á 5 tegundum, sem eru loðna, steinbítur, skötuselur, blálanga og sólkoli.  Að auki eru um 200 framleiðslustaðir hér á landi með MSC rekjanleikavottun.

Markaður, orðspor og fjármagn eru hreyfiöfl sem geta haft jákvæð áhrif á bæði rekstur og samfélög.  Í þessu umhverfi hefur vottun eins og  MSC vaxandi mikilvægi.  Saman stuðlar allt þetta að sjálfbærri framtíð.