Fjögur fyrirtæki Hampiðjunnar tóku þátt í sýningunni AquaNor í Þrándheimi en það voru norsku fyrirtækin Mørenot Aquaculture, Vonin Refa, Fiizk Protection og írska fyirtækið Swan Net Gundry sem var hluti af írska þjóðarbásnum. Starfsmenn, sölumenn og tæknimenn sem stóðu vaktina allan tímann voru rétt um 40 talsins frá átta löndum enda er starfsemin mjög alþjóðleg.

AquaNor er stærsta fiskeldissýning heims og er haldin annað hvert ár í Þrándheimi. Sýningin var haldin í liðinni viku og um 25.000 gestir sóttu sýninguna. Sýnendur eru um 300 talsins frá öllum heimshornum enda er Noregur stærsti og framsæknasti markaðurinn í sjávareldinu og þar er einnig hannaður og framleiddur besti búnaðurinn fyrir landeldi í heiminum.

Á sýningunni voru kynntar margar merkar nýjungar á bás Mørenot sem vöktu mikla athygli enda hefur verið unnið ákaft að vöruþróun í fiskeldisbúnaði síðan Hampiðjan eignaðist Mørenot vorið 2023. Ein þeirra sem hvað mesta athygli vöktu var hálflokuð fiskeldiskví, MarWall, sem er með lokuðum en gegndræpum hliðum sem ná 18 metra niður á hliðar kvíarinnar og dælubúnað sem sækir sjó niður á 25 m dýpi, blandar súrefni í sjóinn og dælir honum upp á yfirborðið. Þannig er hægt að verjast ásókn laxalúsarinnar sem lifir í efstu metrum sjávarins og auka súrefni í vatninu en það eykur vaxtarhraða laxins og vellíðan hans.

Niðursökkvanleg fiskeldiskví

Í öðru lagi niðursökkvanlega fiskeldiskví, MarDeep, sem hægt er að hafa um 20-25 metra undir sjávaryfirborðinu en kosturinn við það er að á dýpinu er jafnari straumur, jafnara hitastig, engin laxalús eða eitraðir þörungar. Flóknasti hluti niðursökkvanlegu kvíarinnar er hattur með loftrými fyrir laxinn en hann hefur stöðuga þörf fyrir að fara í yfirborðið þótt ekki sé alveg ljóst hvers vegna hann gerir það. Þetta lok á fiskeldiskvínni er búið tæknibúnaði, myndavélum, nemum og fóðurdreifara til að fóðra laxinn.

Mørenot með besta bás sýningarinnar

Í þriðja lagi og það sem vakti mesta athygli var BioSeize kerfið sem safnar saman úrgangi og ónýttu fóðri sem fellur óétið niður í gegnum kvínna. Þessi búnaður samanstendur af ConeCollect sem er keilulaga smáriðið net undir fiskeldiskvínni og vakúmdrifinni dælutrekt sem nefnist Fish/It. Með þessum búnaði er hægt að dæla úrganginum og fóðurkorninu óskemmdu upp í flokkunarstöð og skilja það að. Mikil verðmæti eru fólgin í þessu affalli til endurnýtingar og áburðarvinnslu og ekki síður til að forða því að úrgangurinn safnist undir kvínna.

Kynning á BioSeize kerfinu á AquaNor sýningunni.
Kynning á BioSeize kerfinu á AquaNor sýningunni.

Bás Mørenot vakti einnig mikla athygli fyrir hönnun og skýra framsetningu á öllum nýungunum og hlaut Mørenot verðlaun fyrir besta básinn á sýningunni en þau verðlaun þykja mikill viðurkenningarvottur á AquaNor sýningunni.

Verðlaun Mørenot fyrir besta básinn.
Verðlaun Mørenot fyrir besta básinn.

Vöruþróun í fiskeldi að skila sér

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, var ánægður með sýninguna. „Viðtökurnar á sýningunni voru afar góðar og langt framar öllum vonum. Áherslur okkar á vöruþróun í fiskeldinu eftir að við eignuðumst Mørenot eru að skila sér þótt aðeins séu um tvö ár síðan við tókum við rekstrinum. Vænst þótti mér að sjá hvað starfsmenn okkar í fiskeldinu sem tóku þátt í sýningunni voru innilega glaðir og stoltir af því sem hefur áunnist undanfarið og ákafir í að halda áfram á þessari braut því við höfum margar áhugaverðar hugmyndir til að vinna úr á næstu mánuðum og árum. Að fá síðan viðurkenningu fyrir besta básinn kórónaði þessa góðu sýningu fyrir okkur.“

Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar.
Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar.

Alhliða kerfi fyrir fiskeldi

Thomas Myrvold, framkvæmdastjóri Mørenot Aquaculture, segir: „Þátttaka okkar á sýningunni skilaði eftirtektarverðum árangri og undirstrikaði stöðu fyrirtækisins sem leiðandi aðila í fiskeldistækni. Við unnum ekki aðeins verðlaun fyrir besta básinn heldur fengum við einnig tækifæri til að sýna viðskiptavinum okkar árangur vöruþróunar síðastliðinna missera. Nýju tækninni var mjög vel tekið af bæði nýjum og núverandi viðskiptavinum og fengum við bæði mikið af jákvæðum viðbrögðum og áhuga. Sýningin gerði okkur kleift að sýna viðskiptavinum okkar að við erum ekki bara framleiðendur og þjónustuaðilar neta, kvía og fastsetningakerfa heldur að við erum einnig að þróast í átt að því að bjóða upp á háþróuð alhliða kerfi fyrir fiskeldi. Við erum með nýja tækni í þróun sem við ætlum okkur að kynna á næstu mánuðum,“ segir Myrvold.

Thomas Myrvold, framkvæmdastjóri Mørenot Aquaculture.
Thomas Myrvold, framkvæmdastjóri Mørenot Aquaculture.