Ný útgáfa frímerkja er komin út hjá Póstinum sem ber heitið Togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni eru fjögur frímerki og skipin eru Barði NK, Breki VE, Örvar HU og Stálvík SI.

Síldarvinnslan festi kaup á skuttogaranum Barða NK 120 árið 1970. Barði hefur verið talinn fyrsti skuttogarinn í eigu Íslendinga enda var hann fyrsti togari landsmanna með allan hefðbundinn skuttogarabúnað og eingöngu ætlaður til togveiða.

Barði NK var smíðaður í Frakklandi árið 1967. Hann var 327,59 lestir að stærð og með 1200 hestafla vél. Eftir að Síldarvinnslan festi kaup á skipinu voru gerðar á því ýmsar endurbætur en það hélt síðan til veiða hinn 11. febrúar 1971.

Fyrsti skipstjóri á Barða NK var Magni Kristjánsson og gegndi hann starfinu til 1973. Við af honum tók Birgir Sigurðsson og stýrði hann skipinu til 1977. Þriðji og síðasti skipstjórinn var Herbert Benjamínsson og var hann við stjórnvöl þar til skipið var selt til Frakklands árið 1979.

Breki VE 61 var smíðaður 1976 hjá Slippstöðinni hf. á Akureyri og mældist 491 brl. Hét þá Guðmundur Jónsson GK 425 og talinn fullkomnasta fiskiskip Íslendinga. Hann var endurbyggður hjá Slippstöðinni á Akureyri 1978. Hann var seldur til Noregs 2007 og fór síðar til niðurrifs.

Örvar HU 21 var smíðaður á Akureyri árið 1982 og var fyrsti flakafrystitogari Íslendinga. Skipið mældist 499 brl. Það var selt úr landi 1997 til Rússlands.

Stálvík SI 1 var smíðuð 1973 hjá Stálvík í Garðabæ og mældist 314 brúttólestir. Skipið var fyrsti skuttogarinn sem smíðaður var hérlendis. Skipið var lengt 1986 og mælist þá 364 brl. Stálvík var lagt 2004 og fór til Danmerkur til niðurrifs árið 2005.

Frímerkin eru hönnuð af Elsu Nielsen en hönnunin byggir á ljósmyndum sem Anna K. Kristjánsdóttir vélstjóri tók.