Landssamband smábáta hefur mótmælt harðlega þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að fjölga veiðidögum á grásleppu um tíu eða úr 36 í 46. Sambandið hafði áður lagst gegn því að veiðidögum yrði fjölgað.
Fjölgun veiðidaga um tíu tekur gildi á morgun. Smábátaeigendur segja ákvörðun ráðherra hafa komið þeim gjörsamlega í opna skjöldu, og að sambandið hefði engar fregnir fengið af henni fyrr en greint var frá því í fréttum. 62 bátar höfðu þegar dregið upp net. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir í samtali við RÚV að ákvörðun ráðherra sé fordæmalaus.
„Þetta kemur á alröngum tíma, þessi ákvörðun. Á þriðjudeginum í síðustu viku þá lauk tímabilinu, því 36 daga tímabili sem var leyfilegt að stunda veiðarnar. Tíminn fyrir þann tíma, þá hefði þurft að ákveða þetta,“ segir Örn. „Við höfðum skilað okkar áliti 18. apríl og lögðumst gegn því að dögum yrði fjölgað meira heldur en orðið var,“ segir Örn.
Stangast á við strandveiðitímabilið
Landsambandið hefur áhyggjur af stöðu þeirra sjómanna sem hafa virkjað strandveiðileyfi en vilji nú veiða grásleppu lengur. Strandveiðitímabilið hefst í dag, en strandveiðileyfi fellir úr gildi önnur veiðileyfi. Örn segir mikla óvissu um framhaldið. „Þetta kemur þar illa líka vegna þess að um leið og þú byrjar á strandveiðum þá ertu búinn að fyrirgera þér rétt til annarra veiða alveg til ágústloka þannig að þeir ættu ekki möguleika á að fara inn á grásleppuveiðar öðruvísi en að afturkalla strandveiðileyfið.“ Hann bendir á að strandveiðum sé úthlutað ákveðnu magni mánaðarlega. „Og það er gríðarlega mikilvægt að geta byrjað strax veiðar þar.“
Sjá einnig á vef LS.