Brim hefur í samstarfi við Íslandsbanka lokið við útgáfu skuldabréfa sem falla undir sjálfbæran fjármögnunarramma félagsins og eru kennd við grænan og bláan lit. Þannig fjármagnar Brim verkefni sem stuðla að sjálfbærni og hafa jákvæð áhrif á umhverfið og snúa blá skuldabréf að verkefnum tengdum hafi og vatni.
Frá þessu segir
í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem segir að kaupendur skuldabréfanna geti reitt sig á að fjárfestingar þeirra renni til verkefna sem stuðla að sjálfbærni og hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Þannig er fjárfest í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka mengun og stuðla að umhverfisvænni flutningsmátum.
Verður að bregðast við
Í sjávarútvegi má nefna rafvæðingu hafna, orkuskipti, fráveitumál og annað sem stuðlar að heilbrigði hafsins og umhverfisins. Meðal verkefna sem falla undir fjármögnunarramma Brims eru sorpflokkunarstöðvar og uppbygging á umhverfisgagnagrunni félagsins.
„Loftlagsmálin eru ein af helstu áskorunum samtímans og við þurfum öll að bregðast við,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í tilkynningunni.
„Lykillinn að árangri eru stórauknar fjárfestingar í nýsköpun og þróun verkefna á sviði umhverfis- og loftlagsmála. Þess vegna er mikilvægt að virkja fjármálamarkaðinn til samvinnu við okkur og festa í sessi faglegt verklag sem tryggir að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi við mat á fjárfestingum okkar.“