Íslensk verðbréf halda utan um rekstur ÍSEF og leggur því til sérhæfða þekkingu á fjárfestingum og rekstri.
Þetta kemur fram í tilkynningu um kaupin.
Þar segir að ÍS 47 ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem verið hefur í eigu hjónanna Gísla Jóns Kristjánssonar og Friðgerðar Ómarsdóttur frá árinu 2003. Félagið fékk leyfi til eldis á regnbogasilungi í Önundarfirði árið 2013 og setti þá út 19.000 seiði. Starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Í janúar á þessu ári fékk félagið aukin leyfi fyrir rekstri og framleiðslu og hefur nú leyfi fyrir allt að 1.000 tonna framleiðslu af regnbogasilungi á ári.
Núverandi eigendur telja mikil tækifæri felast í fiskeldi á Vestfjörðum og hafa mikla trú á áframhaldandi uppbyggingu ÍS 47. Félagið ber með sér mikla möguleika til að stækka og dafna líkt og gerst hefur verið hjá öðrum eldisfélögum á bæði Vestfjörðum og Austfjörðum. Nýir eigendur hafa lagt félaginu til aukið hlutafé til frekari uppbyggingar og ætla má að rekstur félagsins geti til framtíðar stutt duglega við atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum og þá sérstaklega á Flateyri. Félagið hefur þegar tryggt sér seiði til útsetningar í vor og munu fjárfestingar í frekari búnaði og mannaráðningar fylgja í kjölfarið. Þá telja eigendur tækifæri í mögulegu samstarfi eða sameiningum við önnur félög sem stunda fiskeldi á norðanverðum Vestfjörðum.
Gísli Jón, einn af stofnendum félagsins, segist í tilkynningunni fagna mjög nýjum meðeigendum og að aðkoma þeirra muni gera félaginu það kleift að taka út frekari vöxt til framtíðar, svæðinu og samfélaginu á Flateyri til heilla.
Ráðgjafar seljanda við söluna voru Mar Advisors og Lögfræðistofa Reykjavíkur en fyrirtækjaráðgjöf Íslenskra verðbréfa var kaupanda til ráðgjafar við kaupin.