Noregur og Grænland hafa komist að samkomulagi um gagnkvæmar veiðiheimildi á árinu 2015. Kvótar í flestum tegundum eru þeir sömu og á árinu 2014, að því er fram kemur á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Helstu breytingar eru þær að úthafskarfakvóti Norðmanna við Grænland dregst saman en kvóti í öðrum karfa og grálúðu eykst.
Kvóti Grænlendinga í Barentshafi verður 3.500 tonn í þorski, 950 tonn í ýsu og 700 tonn af ufsa. Að auki hafa grænlensk skip heimild til að veiða 250 tonn af öðrum tegundum sem meðafla.
Kvóti Norðmanna í grálúðu við Vestur-Grænland er 900 tonn en grálúðukvótinn við Austur-Grænland er aukinn um 225 tonn og verður alls 500 tonn. Lúðukvótinn er 160 tonn og þorskkvótinn 120 tonn. Kvóti í botnlægum karfa eykst um 200 tonn og verður 800 tonn. Úthafskarfakvótinn minnkar, eins og áður sagði, vegna lélegs ástands stofnsins.