Fulltrúar þeirra ríkja sem eiga lögsögur að Norðurskautssvæðinu, Kanada, Danmerkur, Noregs, Rússlands og Bandaríkjanna, gerðu samkomulag um það á fundi í Nuuk á Grænlandi um helgina að fiskveiðar þar yrðu bannaðar tímabundið eða þangað til viðeigandi regluverki yrði komið á.
Þetta kemur fram á sjávarútvegsvefnum Fis.com. Þar segir að fulltrúar Kanada, Danmerkur og Bandaríkjanna hafi verið fylgjandi skilyrðislausu banni við fiskveiðum á því svæði sem er utan núverandi lögsagna ríkja, en Rússar og Norðmenn hafi ekki viljað fallast á það.
Í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi er bent á að afstaða Norðmanna helgist m.a. af því að þeir hafi meiru að tapa en aðrar þjóðir ef skilyrðislaust fiskveiðibann yrði sett. Fiskistofnarnir sem líklegastir séu til að færa sig í átt til Norðurskautsins haldi sig nú í norskri lögsögu.