Fiskur virðist hafa horfið meðfram vesturströnd Jótlands og hvorki fiskifræðingar né sjómenn geta útskýrt hvað þarna er á ferðinni, að því er fram kemur í danska sjónvarpinu.
Fiskimenn segja málið vera hið dularfyllsta en fiskurinn hefur horfið af grunnslóð og allt að 30 kílómetra út. Fyrst varð vart við þetta sunnan til en vandamálið hefur færst norður eftir vesturströnd Jótlands.
Talsmenn fiskimanna segja að svo virðist sem ástand fiskistofnanna sé gott lengra úti í Norðursjónum. Það hjálpi þó ekki strandveiðiflotanum sem á allt sitt undir því að geta sótt á grunnslóð.
Danskir fiskifræðingar vakta strandsvæðið ekki reglulega og geta ekki gefið neinar skýringar á því sem er að gerast. Þeir segja jafnframt að engir peningar séu til að rannasaka þetta mál og það eiga fiskimenn erfitt með að sætta sig við.