Markaðsmenn í Noregi nýttu sér sjávarútvegssýninguna í Brüssel til fulls til að vekja athygli á norskum sjávarafurðum. Ein af uppákomum þeirra á sýningunni var að fá Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, í lið með sér til að kveikja áhuga ungra barna á fiski. Kölluðu þeir þetta „Fiskisprell í Brüssel“.
Um 60% af fiskafurðum Norðmanna fara til ríkja ESB og því er Norðmönnum mikið í mun að treysta stöðu sína á þessum markaði.
Leikurinn gekk út á að sýni Damanki hvernig ný kynslóð fiskneytenda verður til. Þar er hugtakið nýliðun víkkað út og látið ná yfir nýja fiskneytendur ekki síður en nýja árganga nytjastofna.
Damanaki og Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs, ásamt 20 börnum frá alþjóðlegum skóla í Brüssel lögðu sig fram um að matreiða rétti úr norkum þorski, lax og rækjum á sýningarsvæði Norðmanna.
Var jafnframt verið að kynna verkefni sem unnið hefur verið að í nokkur ár í norskum barnaskólum. Frá árinu 2007 hefur nær hálf milljón norskra grunnskólabarna fengið kennslu í að elda og ekki síst borða fisk.