Fyrirtækið Marport er með í undirbúningi verkefni sem miðar að því að nýta fiskiskipaflotann í kringum landið í því skyni að mæla til dæmis seltustig og aðra þætti sem geta haft áhrif á lífríkið í sjónum.

Fyrirtækið er í samstarfi við kanadíska framleiðandann AML Oceanographic sem hefur þróað mælibúnað með útskiptanlegum nemum fyrir hina mismunandi mæliþætti.

Óskar Axelsson, framkvæmdastjóri Marports, segir mikilvægan þátt í þessu verkefni að fundist hafi samstarfsaðili sem framleiðir mælibúnað sem stenst ítrustu kröfur vísindasamfélagsins.

„AML Oceanographic  framleiðir mælana og annast kvörðun þeirra þannig að ekki er hægt að efast um gæði mælinganna sem er yfirleitt fyrsta hindrunin sem þarf að yfirstíga,“ segir Óskar.

„Tæknin er með þeim hætti að hægt er að safna miklu magni gagna í sjálfum nemunum sem dregnir eru aftan í trolli. Einnig er hægt að senda gögnin upp í brú eða hvert sem er á landi. Staðsetningarbúnaður er á nemunum og gögnin eru því hnituð miðað við hnattstöðu mælinganna.“

Þörungablómi og súrnun sjávar

Auk seltumælinga getur búnaðurinn mælt sýrustig sjávar sem og þörungablóma. Kosturinn við þennan búnað er að honum er hægt að koma fyrir í skipum sem fara vítt og breitt um miðin í stað þess, sem hefur tíðkast fram til þessa, að mæla þessa umhverfisþætti staðbundið. Eins og alkunna er býr Hafrannsóknastofnun við þröngan fjárhag og úthald rannsóknaskipa stofnunarinnar er afar takmarkað. Með því að nýta flotann til mælinga gætu safnast upp mikilvægar upplýsingar á ýmsum umhverfisþáttum án þess að öðru væri kostað til en sjálfum mælibúnaðinum. Þar sem hægt er að skipta út sjálfum nemunum í mælibúnaðinum er hægt að mæla seltu í einum túr, sýrustig í öðrum og þörungablóma í þeim þriðja, svo dæmi séu tekin.

Mikill þörungablómi getur breytt birtustigi á hafsbotni og haft þau áhrif að dregur úr humarveiðum, svo dæmi sé tekið.

Óskar segir að gjarnan sé talað um breytilegt seltustig og að heimshöfin séu að súrna sem geti verið hárrétt en oft vanti mælingar til að styðja slíkt. Búnaður af þessu tagi geti stuðlað að bættum gögnum sem nýtast vísindunum. Sjávarútvegsfyrirtæki gætu einnig séð hag sinn í mælingum af þessu tagi í gegnum vottanir um að fiskurinn sem þau veiða komi úr heilbrigðu hafi.

Búnaðurinn hentar ekki eingöngu fyrir fiskveiðar heldur gæti safnað mikilvægum gögnum í tengslum við fiskeldi og vöktun á fjörðum þar sem slík starfsemi fer fram.