Íslenska fyrirtækið Responsible Foods ehf. hlaut viðurkenningu í flokki matvælanýsköpunar í hinum virtu World Food Innovation Awards. Fiskinaslið Næra – Fish Jerky Crunch þótti bera af.

Fyrirtækið er hið eina frá Íslandi sem komst í úrslit, en þau Hörður G. Kristinsson og Holly Kristinsson hafa þróað nýstárleg tilbrigði við hefðbundnar harðfiskvörur undir vörumerkinu Næra.

Fyrirtækið er nýhafið framleiðslu á nýju fiskinasli í hátæknivinnslu sinni á Fáskrúðsfirði og vinnur náið með Loðnuvinnslunni þar sem það fær sitt hráefni. Auk Fish Jerky Crunch, sem er gert úr ýsu, framleiðir fyrirtækið nasl úr hertri loðnu. Einnig er boðið upp á nasl úr skyri og ostum.

“Fiskinaslið er alveg einstakt sinnar tegundar og voru viðbrögðin á báðum sýningunum í Bandaríkjunum framar vonum. Fólk sem jafnvel borðar ekki fisk var yfir sig hrifið af naslinu”, segir dr. Hörður G. Kristinsson, rekstrarstjóri Responsible Foods.