Vísindamenn við Háskóla Bresku Kólumbíu í Kanada hafa fundið vísbendingar um að fiskar verði þegar fram líða stundi 20 til 30 prósent minni en nú þekkist þegar höfin hlýna vegna loftslagsbreytinga.

Þegar fiskar stækka þurfa þeir meira súrefni til að halda líkamanum gangandi. Hlýnun hafsins hefur hins vegar í för með sér að súrefnið minnkar í höfunum.

„Þegar höfin hlýna þá verður efnaskipting fiskanna hraðari og þeir þurfa þá meira súrefni til að viðhalda líkamsvirkni sinni,“ segir William Cheung, meðhöfundur rannsóknarinnar, í frásögn á fréttavefnum Sciencedaily.com. Öfugt við spendýr þá eru fiskar með kalt blóð og geta því ekki stýrt líkamshita sínum: „Á ákveðnum punkti kemur að því að tálknin ráða ekki við að koma nógu miklu súrefni til stærri líkama, þannig að fiskurinn hættir bara að stækka,“ segir Cheung.

Rannsóknin var birt í nýjasta hefti tímaritsins Global Change Biology. Höfundur hennar, ásamt Cheung, er Daniel Pauly, en þeir starfa báðir við Institute of Ocean and Fisheries í Háskóla Bresku Kólumbíu.

Pauly greinir frá því að tálknin vaxi ekki jafnhratt og aðrir hlutar fisklíkamans. Þegar fiskar stækka þá þurfi líkami þeirra hins vegar meira súrefni. Þess vegna komi að því, þegar tálknin eru komin að ákveðnum stærðarmörkum, að þau hreinlega ráði ekki lengur við að útvega nægilegt súrefni til að líkaminn geti stækkað meira.

Þetta er mismunandi eftir fisktegundum, til dæmis megi búast við því að túnfiskur verði fyrir meiri áhrifum af þessu en margar aðrar tegundir.

[email protected]